Framkvæmdafé til þurrðar gengið

Óvíst er að Vegagerðin bjóði út fleiri verk á þessu ári. Vegna niðurskurðar hefur útboðum verið frestað. Hugsanlegt er að einhver verk verði unnin í einkaframkvæmd með lánsfjármögnun lífeyrissjóða en þau hefjast ekki á þessu ári.

Öll útboð voru stöðvuð í nóvember á síðasta ári, eftir bankahrunið, en eftir að ákveðið var að skera niður framkvæmdafé um 6 milljarða fól Kristján Möller samgönguráðherra Vegagerðinni að hefjast handa að nýju. Það tímabil stóð aðeins í rúma fjóra mánuði því að í síðustu viku voru öll útboð stöðvuð, meðal annars tvö útboð sem búið var að auglýsa.

Nú er boðað að framkvæmdafé verður skorið niður um 3,5 milljarða til viðbótar í ár og um rúmlega 8,3 milljarða á næsta ári. Eftir eru 17,5 milljarðar til framkvæmda á árinu. Þar af var búið að ráðstafa með samningum um verk frá fyrra ári um 15 milljörðum króna. Verk sem samið hefur verið um það sem af er ári taka til sín þá 2,5 milljarða sem eftir eru. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að farið verði yfir stöðu mála í haust og athugað hvort eitthvert svigrúm verði eftir til framkvæmda.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að væntanlega muni stjórnvöld forgangsraða verkefnum og ræða við lífeyrissjóðina um fjármögnun. Þetta hefur ekki verið útfært, t.d. hvort lánin verði veitt gegn útgáfu skuldabréfa eða hvort sjóðirnir treysta sér til að taka þátt í einkaframkvæmd. Þó er ljóst að tryggingar eru lífeyrissjóðunum mikilvægar og ávöxtunin en Arnar segir að lífeyrissjóðirnir hafi einnig áhuga á að verkefnin séu atvinnuskapandi og þjóðfélagslega hagkvæm.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka