Hagsmunasamtök heimilanna styðja greiðsluverkfall

Frá útifundi HH á Austurvell í maí.
Frá útifundi HH á Austurvell í maí. hag / Haraldur Guðjónsson

Á fundum Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) í Reykjavík, Selfossi og víðar í gærkvöld samþykkti félagsfólk ályktun um stuðning við greiðsluverkfall „fjölda Íslendinga.“ Verkfallið var samþykkt samhljóða á öllum fundunum. Þátttaka í greiðsluverkfallinu getur auk þess að hætta að greiða af lánum meðal annars falist í að draga greiðslur eða takmarka þær og hvetja til úttekta og flutnings á innistæðum.

Markmið greiðsluverkfallsins er að knýja fram breytingu, eða leiðréttingu eins og segir í ályktun HH, á húsnæðislánum vegna brostinna forsenda fyrir skilmálum þeirra vegna efnahagsþrenginganna. Í ályktuninni er markmiðin tíunduð nánar:

„Lán sem hvíla á íbúðarhúsnæði með viðmiðun við gengi erlendra gjaldmiðla verði leiðrétt og yfirfærð í íslenskar krónur frá lántökudegi á gengi þess tíma.
Verðtryggð lán sem hvíla á íbúðarhúsnæði verði leiðrétt þannig að að verðbætur verði að hámarki 4% á ári frá 1. janúar 2008.
Lagabreyting leiði til þess að ekki verði gengið lengra í innheimtu veðlána en að leysa til sín veðsetta eign.
Lagabreyting leiði til þess að við uppgjör skuldar fyrnist eftirstöðvar innan 5 ára og verði ekki endurvakin.
Gerð verði tímasett áætlun um afnám verðtryggingar lána innan skamms tíma og vaxtaokur verði aflagt.“

Stjórn HH var falið að setja á fót fimm manna verkfallsstjórn og skipa í hana einn lögfræðing og tvo stjórnarmenn samtakanna. Í framhaldi af því verða rafrænar kosningar innan félagsins um hvort samtökin beiti sér fyrir hertum aðgerðum. Niðurstöður hennar eiga að liggja fyrir eftir tvo daga.

Vefsetur Hagsmunasamtaka heimilanna: heimilin.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert