Borað niður á bráðið berg

Frá Kröfluvikjun.
Frá Kröfluvikjun. mbl.is/BFH

Djúpborunartilraunir hafa staðið yfir á Kröflusvæðinu síðan í mars. Í gær lentu bormenn á bráðnu bergi á 2104 metra dýpi sem þykir nokkuð grunnt miðað við aðrar borholur á svæðinu.

Í fréttatilkynningu frá Íslenska djúpborunarverkefninu (IDDP) segir: „Við það festist borinn en kælivatni er dælt í gegnum borstrenginn og náðust glerjuð bergsýni af kvikunni. Holan hefur verið í kælingu í alla nótt en í dag tókst að losa borinn. Engin hætta er á ferðum hvorki fyrir mannskap né bortæki. Á næstu dögum verður skoðað gaumgæfilega með hvaða hætti unnt verður að nýta holuna.  Flest bendir til að gera verði aðra tilraunaholu ef ákveðið verður að halda djúpborunarverkefninu áfram.

Með íslenska djúpborunarverkefninu (IDDP) er ætlunin að bora niður í allt að 4-5 km dýpi til að komast í jarðhita í yfirmarksástandi, þ.e. meira en 375°C hita og meira en 220 bar þrýsting.  Landsvirkjun og Alcoa hafa staðið straum af kostnaði við borun holunnar til þessa, og stóð til að bora niður í allt að 3,5 km dýpi áður en samstarfshópur um IDDP tæki við holunni. Ýmsir erfiðleikar hafa hins vegar komið upp að undanförnu, eins og greint hefur verið frá, og verulegar tafir hlotist af þeim sökum.

Borstrengurinn festist í tvígang á um 2100 m dýpi, og tvisvar hefur verið steypt í holuna og borað framhjá festustað.  Það kemur verulega á óvart að bora niður á bráðið berg svona grunnt, því nálægar borholur hafa ekki gefið slíkt til kynna.

Fyrirtæki þau sem standa að djúpborunarverkefninu eru Landsvirkjun, HS Orka hf, Orkuveita Reykjavíkur, Orkustofnun, Alcoa Inc. og Statoil New Energy AS. Styrkir til vísindarannsókna hafa verið veittir frá International Continental Scientific Drilling Program (ICDP) og National Science Foundation.  Jarðboranir hf hafa borað holuna og helstu ráðgjafar verkefnisins eru Íslenskar orkurannsóknir og Mannvit hf auk margra annarra."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert