Fjárhagsstaða slæm hjá stofnunum

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið. Reuters

Ríkisendurskoðun segir, að fjárlög muni ekki halda hjá um fjórðungi þeirra stofnana sem ný úttekt stofnunarinnar til. Hjá átta stofnunum sé staðan svo slæm að bregðast þurfi tafarlaust við.

Í byrjun þessa árs ákvað Ríkisendurskoðun að gera sérstakt átak í eftirliti með fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana. Meðal annars voru gæði rekstraráætlana könnuð hjá völdum stofnunum og eru niðurstöður birtar í skýrslunni Fjármálastjórn 50 ríkisstofnana.

Að mati Ríkisendurskoðunar er líklegt að fjárlög muni halda hjá 28 stofnunum af 50 en ekki að óbreyttu hjá 12. Þá sé ekki hægt að meta líkur á því að fjárlög haldi hjá 10 stofnunum. Þá segir Ríkisendurskoðun það ólíðandi, að í byrjun maí höfðu ráðuneyti ekki samþykkt áætlanir 5 stofnana.

Ríkisendurskoðun telur að hjá 8 stofnunum sé staðan svo slæm að ástæða sé til að bregðast tafarlaust við. Verst sé hún hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Námsmatsstofnun. Halli þessara stofnana sé svo mikill að ekki verði unnið á honum innan eðlilegra tímamarka nema með því að skerða verulega þjónustu, veita þeim viðbótarfé eða blöndu af hvoru tveggja. Verði ákveðið að skerða þjónustu telur Ríkisendurskðun að menntamálaráðuneytið þurfi að gefa skýr fyrirmæli um forgangsröð.

Aðrar stofnanir, þar sem talið er að grípa þurfi tafarlaust til aðgerða, eru Raunvísindastofnun Háskólans,  Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskólinn á Akureyri, Flensborgarskóli, Framhaldsskólinn að Laugum, Listasafn Íslands og Landspítali.

Þá kemur fram í skýrslunni, að menntamálaráðuneytið hafi skipað tilsjónarmenn með Hólaskóla og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti vegna fjárhagsvandræða stofnananna. Ástæða kunni að vera til að bregðast við með sambærilegum hætti hjá öðrum stofnunum þar sem uppsafnaður halli er verulegur og ljóst að ekki verði unnið á honum innan eðlilegra tímamarka.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert