Aumingjaleg afstaða

„Stöðugleikasáttmálinn snýst um að skattar halda áfram að hækka og krónan helst áfram veik,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi.

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar sagði stöðugleikasáttmálann ánægjulegan áfanga, ómetanlegt væri að náðst hefði svo breið sátt. Guðbjartur spurði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins hvort ekki mætti treysta því að Sjálfstæðisflokkurinn tæki þátt í því samstarfi sem efnt hefur verið til með gerð stöðugleikasáttmálans.

Bjarni Benediktssona sagði aðila vinnumarkaðarins hafa sýnt mikla ábyrgð og ekki síður ríkisstjórninni ótrúlega mikið langlundargeð. Bjarni sagði öll stóru málin bíða og nefndi sérstaklega vaxtamálin.

„Ég hef enga trú á þessari ríkisstjórn,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Guðbjartur Hannesson sagði afstöðu formanns Sjálfstæðisflokksins aumingjalega. Hann sagði formann Sjálfstæðisflokksins fagna sáttmálanum en um leið lýsa yfir því að hann treysti ekki ríkisstjórninni og þar með aðilum vinnumarkaðarins til að vinna að framgangi sáttmálans. Guðbjartur Hannesson skoraði á Sjálfstæðisflokkinn að axla ábyrgð og taka þátt í framgangi stöðugleikasáttmálans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert