Drykkjuskapur og ólæti í Hallormsstað

Úr Hallormsstaðarskógi.
Úr Hallormsstaðarskógi. mbl.is/Steinunn

Gleðskapur yfir hundrað ungmenna í Höfðavík í Hallormsstaðarskógi fór úr böndunum aðfaranótt sunnudags. Ölvun og ólæti var mikil og varð öðrum gestum tjaldsvæðisins ekki svefnsamt. Kalla þurfti til lögreglu og varalið til að koma skikki á tjaldsvæðinu.

Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum virðist sem um ungmennin hafi sent smáskilboð sín á milli og ákveðið stund og stað „hátíðarhaldanna. Lögreglu ásamt björgunarsveit sem er á vakt í skóginum tókst ekki að skakka leikinn fyrr en undir morgun. Enginn var handtekinn en til handalögmála kom og mörgum var vísað af svæðinu.

Með flösku en ekkert tjald

Þór Þorfinnsson skógarvörður í Hallormsstað sagði stemmninguna hafa minnt á skrautlega gamaldags útihátíð. Þarna hafi verið gríðarlegur fjöldi ungmennasamankomin og mörg hver hafi bara mætt með flöskuna en skilið útilegubúnað eftir heima.

„Svona nokkuð hefur ekki gerst í háa herrans tíð hér í Hallormsstað. Vandamálið er vissulega þekkt á tjaldstæðum en við höfum vakt alla nóttina og fólki er vísað af svæðinu ef það er til ama fyrir aðra, rólega, gesti."

Þá hafi líka komið á óvart að Höfðavíkin hafi orðið fyrir valinu því hún sé sérstaklega hugsuð fyrir fjölskyldufólk með fellihýsi, tjaldvagna og húsvagna. Þór segir að betur hafi farið en á horfði og ekki mikla skemmdir orðið. Eitt salerni hafi orðið fyrir barðinu á æstum ungmennum. Lögreglan hafi tekið skýrslu af skemmdarvörgunum og þeir verði látnir borga fyrir eyðilegginguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert