Verður þjóðinni ekki ofviða

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

„Þetta er eins fjarri því að vera ánægjulegt og nokkur mál getur orðið. En ekki óviðráðanlegt, hvorki fyrir ríkissjóð eða þjóðina,“ sagði Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra á Alþingi í umræðum um Icesave-samkomulagið. Hann sagði þörf á því að hætta að eyða um efni fram og reka þjóðarbúið með töluverðum afgangi.

Gylfi sagði Icesave-reikningana vera mesta glannaskap Íslandssögunnar. Um hafi verið að ræða íslenskan gjörning og engir aðrir hafi komið við sögu en Íslendingar. Hann tók einnig fram að þetta er aðeins einn flötur af mörgum sem fóru úrskeiðis á undanförnum árum. Íslendingar standa frammi fyrir afleiðingum alls þess.

Hann sagði nauðsynlegt að halda útflutningnum gangandi, og það hafi gengið vel á undanförnum mánuðum. Ekkert bendi til þess að það gangi ekki. Einnig þarf að draga mikið úr innflutningi, líkt og hefur verið gert á undanförnu.

Hann sagði óþarfa að borða gull í Mílanó á Ítalíu, óþarfa að flytja inn popptónlistarmenn. Nóg væri að hlusta á Elton John af plötu. Okkur mun þrátt fyrir það ekki skorta matvæli eða aðrar nauðsynjar.

Gylfi sagði málið snúast um hvort Íslendingar ætli að ganga frá þessu hruni með reisn, með aðstoð nágrannaþjóða. Eða hvort við ætlum að svíkjast undan og bera við fátækt og að við getum ekki borgað. Það segir hann rangt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert