Læknavaktin ódýrust fyrir ríkissjóð

Kostnaður ríkisins vegna komu sjúklinga er minnstur hjá Læknavaktinni, samkvæmt skýrslu sem hagfræðingur Læknafélags Íslands hefur tekið saman. Munur á kostnaði ríkisins vegna komu sjúklinga til sérgreinalækna annars vegar og lækna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er mjög lítill.

Þar sem fyrir liggur að skera þarf mjög niður öll útgjöld ríkisins og þar á meðal til heilbrigðismála hefur Sólveig F. Jóhannsdóttir, hagfræðingur Læknafélags Íslands tekið saman skýrslu með ýmsum upplýsingum um kostnað við heilbrigðiskerfið.

Við vinnslu skýrslu Læknafélagsins var óskað eftir aðgangi að drögum að skýrslu sem til er í Heilbrigðisráðuneytinu um samanburð á kostnaði ríkisins innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins annars vegar og hins vegar á kostnaði ríkisins vegna samnings við Salastöðina. Þeirri ósk Læknafélagsins var hafnað.

Þá fengu fulltrúar þeirra sem skoðaðir voru, tækifæri til að koma að athugasemdum við efni skýrslunnar. Allir nema Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nýttu sér það.

Læknafélagið segir kostnaðarupplýsingar og möguleika á kostnaðarsamanburði einn lykilþátta þess að unnt sé að taka erfiðar ákvarðanir um niðurskurð. Með góðri kostnaðarvitund sé líklegra að ákvarðanir leiði til bestu mögulegrar lausnar þannig að unnt sé að veita eins góða þjónustu og hægt er fyrir það fé sem er til ráðstöfunar.

Í skýrslunni segir að ríkisstjórn og heilbrigðisyfirvöld verði við núverandi aðstæður að skilgreina þá heilbrigðisþjónustu sem mögulegt verður að veita, með öryggi sjúklinga og starfsfólks að leiðarljósi. Í framhaldi af því verði heilbrigðisyfirvöld að forgangsraða þjónustunni því ekki verði hægt að ná niður svo miklum kostnaði án þess að þjónustan skerðist að einhverju leyti.

Læknafélagið segir að við núverandi aðstæður verði að skoða alla þjónustuþætti heilbrigðiskerfisins, kostnaðargreina þá og meta hvort breytingartillögur muni virkilega leiða til sparnaðar í kerfinu í heild sinni.  Ekki sé hægt að taka svo róttækar og mikilvægar ákvarðanir án nákvæmra upplýsinga og er samantekt Læknafélagsins einn liður í upplýsingagjöfinni. Félagið segir að setja verði ákveðinn fyrirvara við hráum samanburði á þjónustunni sjálfri sem veitt er á ólíkum stöðum heilbrigðiskerfisins þótt kostnaðarsamanburður sé mögulegur.

Í niðurstöðum skýrslu Læknafélags Íslands segir að sérhver koma til sérgreinalæknis án rannsóknarkostar árið 2007 hafi verið 9.018 krónur að meðaltali og var hlutur ríkisins um 71% eða 6.415 krónur. Afleiddur kostnaður vegna þjónustu klínískra sérgreinalækna er m.a. rannsóknarkostnaður. Áætlaður rannsóknarkostnaður árið 2007 var rúmlega 980 milljarðar eða um 2.590 krónur að jafnaði á hverja komu sjúklings.

Kostnaður ríkisins (án rannsóknarkostnaðar) á hver samskipti á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) var tæplega 6.240 krónur. Samskipti HH teljast vera komur til lækna og hjúkrunarfræðinga, vitjanir lækna og hjúkrunarfræðinga í heimahús og annað. Annað telst vera allt sem ekki krefst beinna samskipta við sjúkling eins og skráning á aðsendum læknabréfum og rannsóknarniðurstöðum. Viðtöl við lækna á heilsugæslunni voru 282 þúsund. Rannsóknarkostnaður vegna þjónustu HH árið 2007 var um 455 milljónir króna eða tæplega 1.620 kr. að jafnaði á hvert viðtal við lækni.

Kostnaður ríkisins (án rannsóknakostnaðar) árið 2007 vegna heilsugæslunnar í Salahverfi í Kópavogi var tæplega 204 milljónir króna eða rúmlega 4.000 krónur á hver samskipti við stöðina að meðaltali.

Fjárframlög ríkisins til Læknavaktarinnar árið 2007 var 247 milljónir króna. Til að bera saman kostnað heilsugæslunnar, sérgreinalækna og læknavaktarinnar var vitjanahlutinn tekinn út sem og 75% af kostnaði vegna símaþjónustu hjúkrunarfræðinga. Heildarkostnaður á hverja komu sjúklinga á Læknavaktina árið 2007 var um 3.700 krónur að meðaltali. Hlutur sjúklings í þessum kostnaði var tæplega 40% að meðaltali sem þýðir að ríkið greiddi 2.260 krónur fyrir hverja komu.

Þjónusta ofangreindra heilbrigðisþátta er að nokkru leyti ólík og þjónar ólíkri þörf sjúklinga. Engu að síður gefur hún ágæta mynd á það hver raunverulegur kostnaður ríkisins er á þessum heilbrigðisþjónustuþáttum.

Í skýrslu Læknafélagsins segir að það komi ekki á óvart að Læknavaktin sé ódýrust. Það sem komi á óvart sé munurinn á kostnaði HH og Salastöðvarinnar annars vegar og hins vegar sá litli munur á kostnaði ríkisins vegna þjónustu sérgreinalækna annars vegar og HH hins vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert