Kaupin í HS Orku bænum í hag

Orkuver HS Orku í Svartsengi.
Orkuver HS Orku í Svartsengi. Brynjar Gauti

Samningur um sölu Reykjanesbæjar í HS orku skilar 13,1 milljarði króna.  Kaupverð bæjarins í HS veitum nemur 4,3 milljörðum. Gefur því auga leið að verðmiðanir frá árinu 2007 eru bænum í hag, en ekki endurreikningur á virði fyrirtækisins í dag. Þetta segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Hann sendií dag frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Morgunblaðsins í dag, laugardag.

Yfirlýsing Árna fer hér á eftir í heild sinni:

Um kaupverð og söluverð í HS

Kaupverð á  hluta Reykjanesbæjar í HS Orku og sala í HS veitum tekur mið af því háa verði sem var í viðskiptum með HS árið 2007. Öllum má vera ljóst að virði fyrirtækjanna hefur rýrnað verulega í kreppunni. Gefið er í skyn að verðmæti HS veitna sé lægra í dag en kaupin gefa til kynna. Ef verðmæti í HS veitum eru í raun lægri í dag en þá, hljóta verðmæti í HS orku að vera það einnig og líklega enn meir eftir gríðarlegt tap á síðasta ári. Í viðskiptunum er sama verðviðmiðun notuð. Um verðmæti HS orku fjallar Morgunblaðið ekki en gerir þó grein fyrir gríðarlegu tapi HS orku á síðasta ári. Þar sem samningur um sölu Reykjanesbæjar í HS orku skilar bænum 13,1 milljarði kr.  en kaupverð bæjarins í HS veitum nemur 4,3 miljörðum, gefur auga leið að það er Reykjanesbæ  í hag að halda sig við verðmiðanir frá árinu 2007 í stað endurreiknings á virði fyrirtækisins í dag.

Um tengingu vaxta við álverð

Skuldabréfið sem Geysir greiðir með hluta kaupverðs  hefur 3,5% lágmarksvexti og er einnig að ósk Reykjanesbæjar tengt álverðsþróun.  Þetta þýðir að vextir fara aldrei undir 3,5% en geta hækkað í takt við þróun álverðs. Afkoma HS orku er mjög bundin álverði  skv. samningum og því skynsamlegt að tengja vexti þróun álverðs. Miðað við áætlanir um þróun álverðs er gert ráð fyrir 7% meðalvöxtum.

Um kaupverð á auðlindarétti og landi í Svartsengi

Kaupverð á landinu í Svartsengi byggir á tvennu: Annars vegar á virði auðlindaréttar og hins vegar á verðmæti sjálfs landsins. Verðmæti auðlindaréttar, samkvæmt fyrri sölusamningum landeigenda tengist aðeins landinu undir virkjununum og rétti til nýtingar jarðhita langt út fyrir það. Virði auðlindaréttar er mun hærra en reiknaður hektari lands án réttarins. Þess vegna er algerlega út í hött að deila breyttum hektarafjölda í tilboðum í við heildarverð.  Hektarafjöldi í tilboðum hefur  breyst, einmitt vegna óskar   Reykjanesbæjar að kaupa ekki meira land á skipulagssvæði Grindavíkur en þyrfti til að tryggja að auðlindin væri komin í opinbera eigu.  Sem fyrr stendur  Grindvíkingum til boða að ganga inn í umræddan samning. Umfjöllun meirihlutans þar byggir annað hvort á misskilningi eða alvarlegum útúrsnúningi. Grindavík hefur að sjálfsögðu öll gögn undir höndum um reiknað auðlindaverð og tekjur af því og hins vegar reiknað verð á landi og leigugjald af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert