Krefst þess að Árni Þór biðjist afsökunar

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, krafðist þess á Alþingi í dag að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, biðji lögfræðinga Seðlabankans afsökunar á ummælum sínum í fjölmiðlum í dag. Ragnheiður sagði ummæli Árna honum til mikillar minnkunar.

 Árni Þór fór upp í ræðustól snemma í umræðunni og sagðist þar orðvar maður og að mikið þurfi til þess að honum verði misboðið. Það hafi hins vegar gerst eftir að tölvupóstur barst frá yfirlögfræðingi Seðlabankans en þar sagði að ekki bæri að líta á álit lögfræðinga bankans sem umsögn hans. „Ég er ekki að gera lítið úr þeim sjónarmiðum. Þau eru fullgild, eins og hverra annarra. En þetta er augljóslega ekki skoðun Seðlabanka Íslands,“ sagði Árni.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist því ekki sammála. Þegar Seðlabankinn leggi fram álit, með merki bankans, verði að líta svo á að um sé að ræða álit Seðlabankans. Það geti ekki verið persónulegt álit einstakra lögfræðinga. Höskuldur sagði það einnig miður að hæfi þessara manna væri dregið í efa.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók undir orð Ragnheiðar Elínar að mestu leyti og sagði ljóst að Árni Þór hefði farið á taugum í málinu.

Formaður Framsóknarflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fór í kjölfarið fram á að forseti Alþingis aðstoði þingið í þeirri stöðu sem komin sé upp, þ.e. ríkisstjórnin skuli vera farin að beita stofnanir ríkisins skoðanakúgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert