Fá ekki aðgang að gögnum um yfirtöku Glitnis

Lárus Welding fyrrverandi forstjóri Glitnis og Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri …
Lárus Welding fyrrverandi forstjóri Glitnis og Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri á blaðamannafundi í Seðlabankanum eftir að ríkið hafði ákveðið að kaupa 75% hlut í bankanum þann 29. september 2008 mbl.is/kristinn

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest að synjun Seðlabankans um að afhenda gögn um yfirtöku ríkisins á Glitni rúmist innan upplýsingalaga, en hinn 25. júní síðastliðinn féll úrskurður þess efnis hjá nefndinni sem var birtur í dag.

Engin gögn eru til í forsætisráðuneytinu um yfirtökuna sem tilkynnt var um hinn 29. september á síðasta ári, viku áður en neyðarlögin voru sett. Hún fól í sér að ríkið átti að leggja Seðlabankanum til eigin fé gegn 75% eignarhlut. Sem kunnugt er var fallið frá þessum áformum í kjölfar setningar neyðarlaganna.

Engin gögn í stjórnarráðinu aðeins Seðlabankanum
Í Hruninu eftir Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing, kemur fram að engin gögn séu til um yfirtökuna á Glitni hjá forsætisráðuneytinu. Þau séu öll í Seðlabankanum og þar séu þau hulin leynd. Þessu til staðfestingar vitnar höfundur til bréfa frá Arnóri Sighvatssyni, aðalhagfræðingi Seðlabankans, og Sigríði Logadóttir, yfirlögfræðingi Seðlabankans.

Ónafngreint fyrirtæki, sem er kærandi í málinu, sendi Seðlabankanum bréf hinn 19. desember á síðasta ári og óskaði, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga og 15. gr. stjórnsýslulaga eftir aðgangi að „öllum gögnum sem skráð eru í skjalastöð Seðlabanka Íslands sem lögðu grunn að yfirlýsingu formanns bankastjórnar Seðlabankans á fundi sem hann átti með forsætisráðherra, forstjóra og formanni stjórnar [Glitnis] að kvöldi 28. september 2008.“

Þá óskaði kærandi einnig eftir aðgangi að „öllum gögnum er lögðu grunn að afstöðu og/eða aðkomu Seðlabanka Íslands að samkomulagi milli ríkisstjórnar Íslands og eigenda [Glitnis] að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið um að ríkissjóður legði [Glitni] til nýtt hlutafé.“

Kærandi fór jafnframt fram á aðgang að öllum vinnuskjölum í málinu, með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga og og upplýsingalaga. Seðlabankinn synjaði um aðgang að þessum gögnum bréflega hinn 7. janúar á þessu ári. Í kjölfarið var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Seðlabankinn byggði synjun sína m.a á ákvæðum í lögum um Seðlabankann en þar kemur fram að Seðlabankanum sé óheimilt að veita almenningi upplýsingar um „allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs“ og vísar til þess að Glitnir sé „viðskiptamaður“ Seðlabankans.

Eitt minnisblað - vinnuskjal sem er undanþegið aðgangi
Fram kemur í úrskurðinum að Seðlabankinn segir að eina gagnið í vörslum bankans sem beiðni kæranda um aðgang að gögnum geti náð til sé minnisblað Seðlabankans frá 28. september 2008 sem merkt er trúnaðarmál og ber yfirskriftina „Drög að áætlun vegna vanda fjármálafyrirtækja“. Fram kemur í úrskurðinum að niðurstaða nefndarinnar verði að byggjast á því að svo sé. Hvorki liggi fyrir né sé því haldið fram að skjalið hafi farið á milli tveggja stjórnvalda.

Úrskurðarnefndin kynnti sér efni minnisblaðs Seðlabankans frá 28. september 2008. Fram kemur í úrskurðinum að í minnisblaðinu sé að hluta til  sérstaklega fjallað um stöðu Glitnis, s.s. um lánsfjárþörf og beiðni bankans um lánafyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum.

Í skjalinu séu ýmsar hugmyndir um það hvernig Seðlabankinn geti brugðist við lánsfjárbeiðninni, rök fyrir þeim mögulegu viðbrögðum og hættu sem þau gætu skapað. Í þessum hugleiðingum sé einnig vikið að stöðu annarra banka hér á landi og bankakerfisins alls. Þá sé fjallað um markmið með áætluninni og fleiri atriði sem ekki varða sérstaklega Glitni eða aðra banka í landinu. 

Úrskurðarnefndin telur að minnisblaðið sé vinnuskjal í skilningi 4. gr. upplýsingalaga og því undanþegið aðgangi samkvæmt upplýsingalögum.

Í 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að þrátt fyrir að skjal teljist vinnuskjal sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota þá skuli veita aðgang að slíku skjali hafi það að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verði aflað annars staðar frá. Í úrskurðinum segir að af lestri minnisblaðsins fái úrskurðarnefndin ekki séð að þar sé finna bókun um afgreiðslu máls af neinu tagi.

Það varð því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að staðfesta synjun Seðlabankans um að veita aðgang að minnisblaðinu frá 28. september.

Úrskurðurinn í heild sinni

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, eftir fund …
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, eftir fund í Seðlabankanum um Glitni hinn 28. september. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert