Segja ríkisstjórnina halda skýrslu leyndri

Alþingi
Alþingi mbl.is/Eggert

Þingmenn stjórnarandstöðunnar - og Atli Gíslason - voru ómyrkir í máli við upphaf þingfundar í dag. Sögðu þeir ríkisstjórnina halda skýrslu hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið leyndri, en í henni er fjallað um stöðu Íslands í landbúnaðarmálum ef svonefnd finnska leið væri farin í aðildarviðræðum við ESB. Fram kom í umræðunum að skýrslunni hafi verið skilað í lok apríl sl. Hún sýni svart á hvítu að landbúnaðurinn muni bíða mikla hnekki gangi Ísland í ESB.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fór fram á það að forseti Alþingis fundi með þingflokksformönnum eftir fyrsta lið umræðunnar. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, ætlar að verða við því.

Illugi sagði málið vandræðalegt og óþægilegt, enda vanti enn á ný mikilvægt gögn þegar taka á jafn afdrifaríka ákvörðun. Hann sagði málið þó auðleysanlegt, boða skuli til fundar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, skýrslan verði þar kynnt og þingmenn hafi hana það sem eftir lifir umræðunnar.

Nokkrir þingmenn kröfðust þess að fá skýrsluna áður en gengið verður til atkvæðagreiðslu. 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist hafa reynt frá 19. júní að fá skýrsluna afhenta. Alltaf hafi honum verið neita og sagt að hún væri í vinnslu. 

Atlli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sagðist ekki hafa vitað um þessa skýrslu en eftir umræður í morgun væri honum kunnugt um að um drög að skýrslu væri að ræða. Hann sagðist ætla að beita sér fyrir því að skýrslan verði lögð fyrir nefndina.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist vita til þess að sjávarútvegsráðherra hafi ekki verið kynnt skýrslan og það væri einstakt. Að auki væri með ólíkindum að hún hefði ekki verið kynnt Alþingismönnum.

Ásta Ragnheiður upplýsti undir lok umræðunnar að skýrslan verði kynnt í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert