Fluttur á sjúkrahús

Toyota Yaris bifreiðin hafnaði út í skurði
Toyota Yaris bifreiðin hafnaði út í skurði mbl.is/Júlíus

Ökumaður grárrar Toyota Yaris bifreiðar, sem tókst að stöðva er hann ók á ofsahraða nú í kvöld á Hvalfjarðarvegi, var fluttur á sjúkrahús en lögreglubifreið tókst að þvinga hann útaf veginum við afleggjarann að Svínadal. Hafnaði bifreiðin út í skurði en á hjólunum. Að sögn lögreglu er um sömu bifreiða að ræða og var stolið á bensínstöð Skeljungs í Árbænum í dag.

Lögregla fékk ábendingu um ofsaakstur mannsins um sjöleytið í kvöld er hann ók bifreiðinni um göngustíg í Elliðaárdalnum. Þaðan lá leið hans upp í Breiðholt og ók hann meðal annars á ofsahraða um göngustíga í Hólahverfi. Þaðan fór hann gegnum Stekkjarhverfið yfir á Reykjanesbrautina, upp Ártúnsbrekkuna og upp á Vesturlandsveg. Þaðan fór hann inn Hvalfjörðinn og eins og áður sagði tókst að stöðva för hans þegar hann nálgaðist Vesturlandsveg að nýju. Hafði lögregla komið fyrir tveimur stórum jeppum til þess að koma í veg fyrir að hann kæmist inn á Vesturlandsveg að nýju en þar er mikil umferð.

Að sögn lögreglu ók hann aldrei undir 120 km hraða og yfirleitt á um 160 km hraða og skapaði því stórhættu í umferðinni, bæði fyrir gangandi sem og akandi. Reynt var að stöðva hann í nokkur skipti í hringtorgum en sinnti hann engu stöðvunarmerkjum lögreglu.

Sex lögreglubifreiðar tóku þátt í eftirförinni frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu auk nokkurra mótorhjóla. Tvær lögreglubifreiðar óku á móti ökuníðingnum frá lögreglunni á Akranesi og ein sjúkrabifreið frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins elti einnig för ökuníðingsins. Þykir mesta mildi að ekki fór verr en þung umferð er til höfuðborgarinnar.

Bifreiðin hafnaði ofan í skurði
Bifreiðin hafnaði ofan í skurði mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert