Hraður vöxtur eftir kreppu

„Umræðan er á villigötum,“ segir Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík og fulltrúi í bankaráði Seðlabankans, um harða gagnrýni sem fram hefur komið á umsögn Seðlabankans um Icesave-samningana. Friðrik Már telur að þjóðhagslegar forsendur í umsögninni séu eðlilegar. Bankinn hefði þó átt að standa betur að því að kynna umsögnina og forsendur hennar.

Friðrik Már bendir á að Seðlabankinn geri ráð fyrir um 3% hagvexti að jafnaði, miðað við fast verðlag. Sé miðað við verðlag hvers árs aukist landsframleiðsla um 5,5% á ári enda sé þá búið að taka tillit til verðbólgu. Þetta hefði þurft að koma skýrar fram í umsögninni.

Eðlileg hagvaxtarspá

„Ég held að þessar tölur séu eðlilegar,“ segir hann. Reynsla landa sem hafi lent í djúpri kreppu sé sú að undantekningarlítið taki við hraður hagvöxtur.

Spá Seðlabankans um gengi krónunnar hefur verið gagnrýnd fyrir að vera of bjartsýn. Friðrik Már bendir á hinn bóginn á að verðlag fylgi gengi krónunnar. Það sem skipti máli í reikningum Seðlabankans sé raungengið. Yrði gengi krónunnar veikt yrði verðbólga meiri og verg landsframleiðsla myndi því aukast að nafnvirði. Hlutföll milli erlendra skulda og vergrar landsframleiðslu myndu því lítið breytast.

Þá bendir hann á að ef svartsýnustu spár myndu rætast og hagvöxtur yrði lítill hér á næstu árum væri ljóst að fjárfesting og neysla yrði lítil, raungengi yrði lægra og enn meiri afgangur yrði á viðskiptum við útlönd. Erlendar skuldir mætti því greiða hraðar niður en ella. Það væri sérlega athyglisvert að Ísland sé eitt fárra landa í OECD þar sem utanríkisviðskipti draga úr niðursveiflunni. Áhrifin af veiku gengi krónunnar skipti hér mestu. „Samdrátturinn á Írlandi er töluvert miklu snarpari heldur en hér. Þótt mörgum sé illa við krónuna, þá dempar hún niðursveifluna. Krónan átti góðan þátt í að fella bankana en núna hjálpar hún.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert