Höfðust við í bílnum næturlangt

Austurrískur ferðamaður datt og slasaðist talsvert við göngu á Herðubreið á laugardaginn var. Sonur hans, 10 ára gamall, hjálpaði pabba sínum niður í bílaleigubíl þeirra og létu þeir fyrirberast í honum aðfaranótt sunnudags.

Feðgarnir munu hafa verið búnir að ganga upp á Herðubreið og voru á niðurleið þegar þeir lentu í ógöngum.  Pabbinn, sem er á miðjum aldri, datt og meiddist talsvert í andliti og hlaut höfuðhögg.

Það var um kl. 15.00 í gær, sunnudag að ferðafólk gerði landvörðum í Herðubreiðarlindum viðvart um feðgana í bílnum. Þeir héldu þegar af stað en um klukkustundar ferðalag er þangað sem feðgarnir voru í bílnum við uppgönguna á fjallið.

Þegar að var komið var bíllinn rafmagnslaus og því ekki í gangi. Maðurinn var orðinn kaldur og var illa áttaður auk þess sem hann var  meiddur. Hann hafði hlotið töluverða áverka, m.a. í andliti, og mundi lítið frá tveimur síðustu sólarhringum. Þótti ljóst að maðurinn hefði fengið slæmt höfuðhögg. Landvörður tilkynnti atvikið til lögreglunnar á Húsavík um kl. 16.30 í gær.

Hrönn Guðmundsdóttir, landvörður í Drekagili, sagði að aðfaranótt sunnudags hafi hitinn verið um frostmark í Drekagili og ef til vill nokkrum gráðum hlýrra við uppgönguna á Herðubreið.  Hún sagði að drengurinn hafi staðið sig eins og hetja. „Það er ótrúlegur töggur í honum,“ sagði Hrönn.

Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit var kölluð til aðstoðar og flutti hún lækni og sjúkraflutningamenn inn í Herðubreiðarlindir, en þangað er ófært fyrir sjúkrabíl. Með þeim var lögreglumaður frá Húsavík. Slasaði maðurinn var síðan fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Maðurinn hlaut andlitsáverka og er nú í meðferð á Fjórðungsjúkrahúsinu, að sögn Þorvalds Ingvarssonar, framkvæmdastjóra lækninga.  Hann mun dvelja á sjúkrahúsinu að minnsta kosti í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert