150 starfa við hvalskurðinn

mbl.is/ÞÖK

Atvinnulausum á Akranesi hefur fækkað töluvert að undanförnu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness þakkar það fyrst og fremst vinnslu sem tengist hvalveiðum en um 150 manns starfa við hvalskurð á Akranesi og í Hvalfirði.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að þegar mest var, hafi flestir 333 verið skráðir atvinnulausir á Akranesi. Í dag eru 259 án atvinnu eða í hlutastörfum, 112 karlar og 147 konur. Atvinnulausum hefur því fækkað um 74 á síðustu mánuðum eða sem nemur 28,5%.

„Það verða að teljast afar ánægjuleg tíðindi í ljósi þess ástands sem nú ríkir í íslensku atvinnulífi vítt og breitt um landið. Ástæða þess að störfum hefur verið að fjölga er fyrst og fremst að þakka vinnslunni sem er tengd hvalveiðum en hátt í 150 manns starfa nú við vinnslu í Hvalfirði og á Akranesi,“ segir Vilhjálmur.

Þá segir hann engan vafa leika á að störf við stóriðju á svæðinu tryggi mikinn stöðugleika í atvinnulífinu hér á Akranesi.

„Því miður eru þessi störf í kringum hvalveiðarnar tímabundin en reiknað er með að veiðarnar og vinnslan standi eitthvað fram í ágúst eða september,“ segir formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Vefsíða VLFA

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert