Bifhjólaslys, kynferðisbrot og hraðakstur

Nokkur bifhjólaslys urðu í dag og eitt fjórhjólaslys. Lögreglan á Selfossi rannsakar meinta nauðgun við Úthlíð. Nokkrir ökumenn teknir fyrir hraðakstur í dag, þar á meðal einn í framúrakstri með hjólhýsi í eftirdragi.

Rannsóknardeildin á Selfossi rannsakar nú meinta nauðgun á tjaldstæðinu við Úthlíð. Var handtekinn einn maður á svæðinu og hefur hann verið yfirheyrður.

Tilkynnt var um bifhjólaslys um klukkan þrjú i dag við Fagurhólsmýri og var þyrla landhelgisgæslunnar send á staðinn. Var maðurinn í fyrstu talinn vera talsvert slasaður en síðar hefur komið í ljós að hann hefur sloppið betur en á horfðist.

Annað bifhjólaslys varð í dag, á Þingvallavegi, til móts við Skálafellssafleggjara. Ökumaður var fluttur á slysadeild.

Þá slasaðist maður á fjórhjóli um hálf sjöleytið í kvöld, þar sem hann ók á hjóli sínu í malarnámunni Hólabrú, skammt frá gjaldskýli Spalar við Hvalfjörð. Maðurinn velti að öllum líkindum hjóli sínu og fékk það svo ofan á sig. Brotnaði hann eitthvað í andliti og var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Umferð hefur verið talsvert mikil víða um land í dag og eitthvað um hraðakstur. Einn var tekinn af lögreglunni á Akranesi. Var sá að taka framúr á 111km hraða, með hjólhýsi í eftirdragi. Ökumaðurinn var sektaður um 60 þúsund krónur og vonandi að hann láti af þessari háskahegðun.

Lögreglan á Blönduósi tók nokkra fyrir hraðakstur í dag. Einn ökumannanna var á 152 km hraða og var sviptur ökuleyfi í einn mánuð. Hann var einnig sektaður um 130 þúsund. Ekki lét hann sér þó segjast því vegfarandi hringdi í lögregluna skömmu síðar til þess að tilkynna um hraðakstur sama bíls.

Annars er lögreglan um allt land sátt við daginn og segir hátíðir fara vel fram og ökumenn haga sér sómasamlega flestum tilvikum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert