Friðþæging fyrir stjórnvöld

Ný greiðsluaðlögun Nýja Kaupþings hefur að markmiði að tryggja greiðsluvilja lántakenda og rekstrargrundvöll bankans, að mati Hagsmunasamtaka heimilanna. Hún fríi einnig stjórnvöld frá því að koma með raunverulegar lausnir fyrir heimilin.

Nytt úrræði Nýja Kaupþings fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum, Skuldaaðlögun, er mörgum vanköntum búin að mati Hagsmunasamtaka heimilanna sem hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Svo virðist sem markmið úrrræðisins sé fyrst og fremst það að tryggja greiðsluvilja lántakenda og á sama hátt rekstrargrundvöll bankans. Þá megi jafnvel líta svo á að eitt markmiðanna sé að firra stjórnvöld ábyrgð á því að koma með raunverulegar og sanngjarnar lausnir fyrir heimili landsins. Kjarni úrræðisins virðist vera að fá fólk til þess að viðurkenna skuld sem það hafi ekki stofnað til, þ.e stökkbreyttan höfuðstól gengis- og verðtryggðra lána en hann hefur margfaldast undanfarna mánuði. Spyrja megi hvort forsendur hækkunarinnar séu ekki brostnar eða jafnvel ólögmætar. Úrræði Nýja Kaupþings sé því í raun eignaupptaka og beri stjórnvöldum að leiðrétta það.

Samtökin vekja sérstaka athygli á því að úrræðið gerir ráð fyrir að gengistryggðum lánum verið breytt í krónulán miðað við gengi dagsins, nokkuð sem væri til verulegra hagsbóta fyrir bankann með tilliti til veiks gengis krónunnar. Þannig tæku lántakendur á sig  gengistapið, en heimilin hafi tekið lánin þegar gengið var mun hagstæðara en nú er. Þegar dæmi um mismunandi aðstæður lántakenda séu skoðuð megi líka sjá að úrræðið gagnist helst þeim hópi sem tóku verðtryggð lán og lögðu fram hlutfallslega lítið eigið fé til kaupanna.

Samtökin segja sömuleiðis að séu þær upplýsingar sem liggi fyrir skoðaðar liggi beint við að álykta að bankinn fari fram á fulla endurgreiðslu af biðláninu að þremur árum liðnum, þegar það sé endurskoðað. Samtökin velti því fyrir sér hvort tilgangur úrræðisins sé sá að hvetja fólk til samninga í krafti lægri greiðslubyrði til skamms tíma. Það sé umhugsunarefni hvernig bankinn muni nálgast málið þegar að endurskoðun kemur. Hvort eitt verði látið yfir alla gangi eða hvort ákvarðanir verði teknar á öðrum grundvelli. Nú þegar allt stefni í að erlendir kröfuhafar eignist bankann sé full ástæða til þess að athuga hvort ferlið allt sé nægilega gegnsætt. Of mikil óvissa sé um úrræðið og það sé vart boðlegt almenningi. Þá komi það á óvart að ekki sé gert ráð fyrir afskriftum en eftir sameiginlegan fund samtakanna með stjórnendum Nýja Kaupþings í lok júní hafi það verið skilningur samtakanna að það yrði gert. Þær útskýringar sem hafi heyrst á þessu bendi til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi lagst á móti afskriftunum og megi draga af því þá ályktun að sjóðurinn hafi þumalskrúfur á efnahagslifi þjóðarinnar.

Hér fyrir neðan má sjá álitsgerðina í heild sinni, ásamt dæmum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert