Styðja Icesave með fyrirvara

Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Borgarahreyfingarinnar segist tilbúin að styðja Icesave samninginn ef settir verða sterkir fyrirvarar meðal annars um greiðslugetu þjóðarinnar. Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins reiknar með að samið verði um slíka fyrirvara fyrir þinglok.

Icesave samningurinn verðurlíklega samþykktur fyrir þinglok með sterkum fyrirvörum að mati þeirra Guðbjarts Hannessonar formanns Fjárlaganefndar, Birgittu Jónsdóttur talsmanns Borgarahreyfingarinnar og Péturs Blöndal þingmanns Sjálfstæðisflokksins, en slíkar viðræður eru í gangi milli þingmanna um málið. Guðbjartur Hannesson segist þó frekar kjósa að tala um forsendur en fyrirvara.

Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að mikil mistök hafi verið að undirrita samninginn en eins og málum sé komið sé bæði mikil áhætta fólgin í því að samþykkja hann og fella hann.  

Hægt sé að visa samningnum aftur til ríkisstjórnarinnar með þeim orðum að hún semji aftur þannig að öll áhættan lendi ekki á þjóðinni. Þá sé einnig  hægt að semja um takmarkaða ríkisábyrgð. Ef það verði enginn hagvöxtur verði ekkert borgað en ef hann verði sé hægt að borga hlutfall af honum. Ef forsendur Seðlabankans gangi eftir muni Íslendinga ekkert um að borga þetta.

Hætt er við að slíkir fyrirvarar myndu jafngilda uppsögn samningsins í augum Breta og Hollendinga en Pétur segir kúnstina að setja fram þessi skilyrði þannig að þeir eigi erfitt með að hafna þeim.

Birgitta Jónsdóttir segir viðræður um fyrirvara meðal annars snúa að því að halda dómstólaleiðinni opinni og setja þak á greiðslurnar. Hún eigi von á því að þingmenn flokksins geti samþykkt samninginn ef þessir fyrirvarar séu til staðar.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert