Skaut félaga sinn í handlegg

Haglabyssa mannsins var gerð upptæk.
Haglabyssa mannsins var gerð upptæk. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert haglabyssu hans upptæka. Maðurinn sem var við veiðar lagði hlaðna byssuna í farangursgeymslu bifreiðar, og kastaði síðar öðrum búnaði í sömu átt. Varð það til þess að skot hljóp af og lenti í vinstri framhandlegg félaga hans.

Félagi mannsins hlaut sár á handleggnum og þurfti að gangast undir aðgerð þar sem fjarlægð voru högl og járnstykki. Í dómnum segir að hæglega hefði getað farið mun verr enda stóð félaginn skammt frá bílnum.

Maðurinn sagði fyrir dómi að um einstakt óhapp hafi verið að ræða og enginn ásetningur legið að baki. Bar hann við að trúlega hefði skot hlaupið úr byssunni þegar hann sveiflaði poka með gerviöndum inn í farangursgeymsluna og ofan í kassa sem var innst inni í henni.

Sannað þótti að byssan hafi verið í fullkomnu lagi og útilokað að skot hlypi af, ef öryggi byssunnar væri á. Einnig væri útilokað að eitthvað hefði rekist í byssuna og í senn valdið því að öryggi færi af og skot hlypi af.

Maðurinn sem er þaulvanur meðferð skotvopna sagðist ekki hafa hugsað úti það að byssan væri hlaðin, þegar hann lagði hana frá sér. Hann fór fram á að upptökukröfu væri hafnað, m.a. vegna verðmætis byssunnar. Dómurinn leit hins vegar til hins mikla líkamstjóns sem hlaust af gáleysi mannsins og féllst á kröfu ákæruvaldsins.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn var mjög samvinnufús við rannsókn málsins auk þess sem málið hefur tekið mjög á hann. Þá á hann ekki að baki sakarferil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert