Undirbúa málsókn á hendur Gift

mbl.is/Ómar

Grunur leikur á að lánveiting Kaupþings til fjárfestingarfélagsins Giftar í september 2008 hafi verið tilraun til að halda gengi hlutabréfa Kaupþings uppi. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Þar var bent á að mál af þessum toga eru litin mjög alvarlegum augum hjá Fjármálaeftirlitinu og allajafna send til sérstaks saksóknara. Gift skuldar tæpar 45 milljarða króna með áföllnum vöxtum. Áætlað er að eignir félagsins dugi fyrir um 7 til 8% skuldanna.

Greint var frá því í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að í lánabók Kaupþings kæmi fram að fjárfestingarfélagið Gift fékk lán hjá bankanum í september 2008. Lánið var alls að upphæð 166,8 milljónir evra, sem jafngildir rúmlega 23,6 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi. Kaupþing ætlaði með lánveitingunni að endurfjármagna félagið. Gift átti innan við eitt prósent í Kaupþing á þessum tíma. Grunur leikur á að lánið hafi verið veitt til að aftra því að gengi bréfa í bankanum féllu.

Fram kom í fréttinni að Fréttastofa Ríkissjónvarpsins hefur heimild fyrir því að um tíu tryggingahafar séu að undirbúa málsókn á hendur félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert