Ísland undir meðaltali OECD ríkja í menntamálum

Mbl.is/Jim Smart

Bilið milli Norðurlandanna fimm í menntakerfinu hefur aukist. Finnland kemur sem fyrr langbest út. Íslendingar, Norðmenn og Danir allir undir meðaltali OECD ríkja. Félagslegir þættir og fjárhagsstaða foreldra hefur sífellt meiri áhrif á frammistöðu nemenda.

Þessar niðurstöður koma fram í nýrri skýrslu, Northern Lights on PISA 2006,  sem gerð var fyrir Norrænu ráðherranefndina en í henni er árangur norrænna nemenda í síðustu PISA könnun borinn saman.

Er það mat höfunda að foreldrar, fjárhagsstaða þeirra, búseta og félagsleg staða hafi sífellt meiri áhrif á frammistöðu grunnskólanemenda.

Finnar tróna enn í efsta sæti og eru álitnir vera tveimur árum á undan öðrum þjóðum hvað námsárangur og kennslu varðar. Þeir eru þannig talsvert á undan Norðmönnum, Dönum og Íslendingum sem allir eru undir meðaltali OECD-ríkja. Svíar þykja vera í fararbroddi með tilliti til endurskipulagningar á menntakerfinu.

Þrátt fyrir að mikill munur sé á milli landanna er það þó niðurstaða skýrsluhöfunda að norrænir nemendur séu mjög líkir, ef litið er á svör nemendanna við PISA könnunni. „Það getur átt sér rætur í tungumálinu, en einnig í sögulegum og menningarlegum bakgrunni,“ segir einn af skýrsluhöfundunum, Svein Lie, frá Háskólanum í Osló.

Skýrslan var kynnt á ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar og menntamálaráðuneytisins sem haldin var hérlendis 17. og 18. Var ráðstefnan  hluti af formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

„Ástæðan fyrir því að við vinnum saman er líklega fyrst og fremst sú að við teljum okkur geta lært hvert af öðru, haft gagn hvert af öðru. Við getum miðlað hvert öðru á jafnréttisgrundvelli. Í því er styrkur norræns samstarfs einmitt fólginn. Norrænu PISA rannsóknirnar eru eitt dæmi um slíkt“, sagði Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, á ráðstefnunni.

Í skýrslunni eru árangur norrænu ríkjanna í PISA könnuninni árið 2006 borinn saman, og sérstaklega litið til kunnáttu í náttúrufræði. Tvær fyrri PISA-skýrslur frá árunum 2000 og 2003 lögðu áherslu á mat á lestrarkunnáttu og stærðfræðikunnáttu.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert