Fjárhagur Landakotsskóla farið versnandi

Landakot.
Landakot.

Sú ákvörðun stjórnar Landakotsskóla að segja upp skólastjóra skólans er hluti af hagræðingaraðgerðum og ætlað að valda sem minnstri röskun á starfsemi skólans.

Í yfirlýsingu sem stjórnin hefur sent frá sér vegna umfjöllunar um málefni Landakotsskóla segir:

„Ný stjórn Landakotsskóla ákvað á fundi sínum föstudaginn 14. ágúst síðastliðinn að segja skólastjóra Landakotsskóla upp störfum.

Uppsögnin er hluti af hagræðingu í rekstri skólans sem nauðsynleg er í ljósi þröngrar fjárhagslegrar stöðu hans. Rekstrarstaða skólans hefur um nokkurt skeið farið versnandi, og eru ástæðurnar einkum tvær.

Annarsvegar hefur launakostnaður hækkað verulega í kjölfar nýrra kjarasamninga, hinsvegar hefur nemendum við skólann fækkað. Stjórnin getur hvorki né vill skerða samningsbundin réttindi kennara og því er ljóst að launakostnaður verður ekki lækkaður við skólann nema með fækkun starfsfólks. Stjórninni er hinsvegar óljúft að segja upp kennurum umfram það sem fyrri stjórn hafði þegar gert.

Það er von stjórnarinnar að þessi ákvörðun valdi sem minnstri röskun á skólastarfi. Stjórnin hefur mikla trú á kennaraliði skólans og vill leggja sitt af mörkum til að búa kennurum góð starfsskilyrði en það er forsenda þess að skólinn geti veitt nemendum sínum þá örvun, aðhald og stuðning sem honum ber. Sigríður Hjálmarsdóttir aðstoðarskólastjóri hefur fallist á að taka að sér starfsskyldur skólastjóra samhliða starfsskyldum sínum sem kennari við skólann tímabundið þar til nýr skólastjóri verður ráðinn við Landakotsskóla. Verkefni hennar verður ásamt stjórn að standa vörð um þau gildi sem Landakotsskóli hefur lagt rækt við um árabil og efla hann sem traustan og framsækinn grunnskóla.

Landakotsskóli mun hér eftir sem hingað til leggja höfuðáherslu á að veita nemendum sínum úrvalsmenntun frá fimm ára bekk og upp í tíunda bekk. Skólinn hefur tekið inn nemendur með sérþarfir eftir föngum og mun sú stefna ekki breytast. Í samræmi við stefnu skólans frá 2008 miðast inntaka nýrra nemenda við getu skólans til að sinna þörfum þeirra í samræmi við þær skyldur sem samningur skólans við Reykjavíkurborg felur í sér. Mikil ábyrgð felst í því að taka við nemendum með sérþarfir. Stjórnin telur að þá kröfu verði að gera til skólans að slíkir nemendur fái ekki lakari þjónustu í Landakotsskóla en í öðrum skólum.

Það hefur verið stefna stjórnarinnar allar götur frá því að Landakotsskóli varð sjálfseignarstofnun árið 2005 að skólinn eigi að vera opinn öllum nemendum. Núverandi stjórn mun leggja sig fram um að opna skólann enn frekar en verið hefur, meðal annars með því að aðgangur nemenda að skólanum verði ekki háður efnahag foreldra. Fylgt verður erlendum fyrirmyndum í þessu sambandi.

Þó að Landakotsskóli sé lítill skóli hefur fjölbreytni nemenda verið aðalsmerki hans. Á þessu verður engin breyting. Skólinn er fjölþjóðlegur skóli en um þessar mundir stunda nemendur sem eiga ættir að rekja til yfir 20 landa nám við skólann. Rækt verður lögð á næstu árum við fjölmenningarlegt yfirbragð skólastarfsins auk rótgróinna tengsla skólans við kaþólsku kirkjuna.

Sú stefna hefur verið mörkuð á síðustu árum að gera tungumálanámi sérstaklega hátt undir höfði í skólastarfinu og hefja kennslu erlends tungumáls strax í fimm ára bekk. Núverandi stjórn hefur hug á að efla tungumálanámið enn frekar og styrkja það, þannig að nemendur skólans hafi raunverulegt forskot á nemendur annarra grunnskóla þegar námi lýkur. Núverandi stjórn hefur einnig hug á því að efla kennslu í vísindum og listum á næstu misserum.

Samkvæmt gildandi samningi við Reykjavíkurborg fær skólinn 75% af því fjármagni sem opinberir grunnskólar í borginni fá á hvern nemanda að meðaltali. Þetta þýðir að til þess að skólinn hafi hlutfallslega sama fjármagn til umráða og aðrir skólar, þarf framlag foreldra að nema þriðjungi af framlagi borgarinnar. Það er ljóst í því árferði sem nú ríkir að þetta næst ekki, þar sem skólagjöld þyrftu þá að hækka.

Skólinn verður að sníða sér stakk eftir því á næstu mánuðum en huga um leið að möguleikum til að auka tekjurnar. Þetta verður eitt helsta verkefni nýrrar stjórnar sem hún vill vinna í góðu samstarfi við foreldra og velunnara skólans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert