Ísland milli steins og sleggju

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefnfdar á Alþingi
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefnfdar á Alþingi mbl.is/Eggert

Ísland er á milli steins og sleggju í Icesave-málinu, alþjóðlegar kröfur og reiði almennings takast þar á, samkvæmt frétt hollenska dagblaðsins NRC Handelsblad. Þar veltir blaðamaðurinn því fyrir sér hvort Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, geti forðast frekari hörmungar fyrir Ísland, bæði innanlands sem utan.

Segir blaðið Icesave-reikningum Landsbankans og falli þeirra best lýst á eftirfarandi hátt: Aðeins of háir vextir með gríðarlegum afleiðingum á allt efnahagslíf íslensku þjóðarinnar.

Farið er yfir deilur á Alþingi um Icesave-samkomulagið í greininni og þær efasemdir sem upp hafi komið á Íslandi um skilmála láns Hollendinga og Breta til handa Íslandi vegna endurgreiðslu á Icesave reikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Ef ekki verði gengið frá samkomulaginu þá geti það haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar í för með sér hvað varðar endurreisn íslenska hagkerfisins og ólíklegt sé að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og aðrir muni lána landinu. Eins færu viðræður um Evrópusambandsaðild jafnvel í hnút.

Fram kemur í NRC að svo virðist sem hollensk stjórnvöld hafi ekki miklar áhyggjur af málinu eins og er og að Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafi sagt að hann tjái sig ekki um málið fyrr en íslenska þingið hafi greitt atkvæði um samninginn. Bæði Bos og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi áður sagt að viðbæturnar sem gerðar voru við samkomulagið í fjárlaganefnd þurfi ekki að þýða það að semja þurfi upp á nýtt.

Frétt NRC í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert