Ástandið „aldrei eins slæmt og núna“

Stund á milli stríða Þessir ungu drengir virtu fyrir sér …
Stund á milli stríða Þessir ungu drengir virtu fyrir sér lögregluhjól fyrr í mánuðinum. mbl.is/Jakob

Um 20 lögreglumenn eru að jafnaði á almennri vakt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til að sinna útköllum og halda úti eftirliti. Sú tala getur farið niður fyrir 10, sé t.d. mikið um veikindi eða frí, segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá LRH.  Í dag eru 10 frá á vaktinni vegna veikinda og sumarfría.

Geir Jón segir að þetta heyri til undantekninga. „Þegar við skoðum varðskrána, og skoðum alla sem eru í vinnu við almenn löggæslustörf, sem geta sinnt eftirliti og útivinnu, þá eru 24 á vaktinni í dag.“ Aðeins hafi verið sjö menn skráðir á grunnvaktina í morgun. Geir Jón viðurkennir að sumarið hafi verið afar erfitt.

Hann segir að ekki hafi fengist fjárveiting til að ráða menn í sumarafleysingar, en um fimm menn hafi verið í sumarfríi í hverjum mánuði. „Þetta er búið að vera sérlega erfitt núna þetta sumar. Aldrei eins slæmt og núna,“ segir Geir Jón í samtali við mbl.is. Ástandið hafi verið verst í júlí og ágúst.

Hægt að kalla út aukamannskap

„Það er engin vakt skráð með færri en 18-20 menn,“ segir Geir Jón, en bendir á að það geti t.d. komið upp veikindi og sumarfrí á sama degi. Ef nauðsyn krefji sé hægt að kalla út menn í aukavinnu samkvæmt reglum um aukavinnu.

Hver almenn vakt er átta klukkustunda löng, en um helgar getur vaktin orðið 12 til 13 tímar. Geir Jón segir að hver stjórnandi hafi ákveðið skipulag fyrir framan sig sem sýni hvað hann verði að hafa marga menn að lágmarki á vakt á hverjum tíma. Almennu vaktirnar séu samtals fimm og hverri vakt tilheyri um 20 manns.

Hann segir að um föstudags- og laugardagskvöldum, þegar álagið er einna mest, séu um 30 manns á vakt. Færri séu á vaktinni yfir daginn, þ.e. á laugardag og sunnudag. 

Mönnum raðað eftir álagi skv. nýju skipulagi

Geir Jón bendir á að 1. október muni nýtt vaktafyrirkomulag taka gildi. Þá verði mönnum raðað í skylduvinnu miðað við álag. „Þegar álag er sem minnst þá eru sem fæstir við vinnu, en aftur fleiri þegar álagið er meira.“

Nýja fyrirkomulagið hefur mætt andstöðu meðal lögreglumanna. Hann bendir á að menn vilji fremur vera í vinnuhópum. Það sé hins vegar nauðsynlega á erfiðum tímum að stýra mannskapnum miðað við verkefni. „Til þess að fjármagnið nýtist betur.“

Geir Jón segir að það eigi til að gleymast í umræðunni um störf lögreglunnar að fleiri séu á vakt heldur þeir sem tilheyra almennu vaktinni. T.d. stjórnendur, lögreglumenn í umferðadeild og lögreglumenn sem eru á svæðisstöðvunum. „Það geta verið fleiri sem hægt er að nýta til verkefna heldur en akkúrat þeir sem stjórnandinn á vaktinni sér fyrir framan sig.“

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn.
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Frikki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert