100-watta glóperan bönnuð 1. september

Hefðbundnar glóperur tína brátt tölunni.
Hefðbundnar glóperur tína brátt tölunni. Jim Smart

Sölu á gömlu hefðbundnu 100-watta ljósaperunum,  verður hætt í verslunum í Evrópusambandslöndum frá og með næstu viku, þegar þær víkja fyrir nýjum orkusparandi gerðum. Neytendasamtök fagna tímamótunum en ekki án fyrirvara.

Frá 1. september  verða 100 watta ljósaperurnar bannaðar í evrópskum verslunum og aðrar glóperur af þessu tagi með lægri ljósstyrk fylgja á eftir á næstu árum eða á árunum 2009 til 2012, samkvæmt kerfi sem samþykkt var innan Evrópusambandsins í desember á síðasta ári.

Ljósaperur með nýrri tækni svo sem flúrljós geta sparað um 80% af orku mestu eyðsluklónna meðal heimilispera af gömlu gerðinni. Breytingin mun jafnframt verða til þess að draga úr losun koltvísýrings og er hluti af áætlun ESB í loftlagsmálum.

Nú er talið að um 80% heimila innan Evrópusambandsins noti of mikla orku til heimilislýsingar. 

Evrópsku neytendasamtökin hafa fagnað því að hætt skuli smám saman notkun gömlu ljósaperanna, því að það muni þýða sparnað fyrir neytendur en meira máli skipti þó að ákvörðunin feli í sér bætta orkunýtingu.

Hins vegar segja samtökin í yfirlýsingu hvarf gömlu ljósaperanna af markaði geti komið niður á sumum neytendum. Hátt hlutfall kvikasilfurs í nýju perunum sé áhyggjuefni og geti haft áhrif á heilsu almennings en áætlun ESB horfi framhjá þörfum sumra neytenda sem þurfi gömlu ljósaperurnar af heilsufarslegum ástæðum á borð við viðkvæmni fyrir birtu.

Ekki fékkst upplýst hvort ákveðið hafi verið að fylgja þessar ákvörðun hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert