Vinnudagar kennara að meðaltali 174,7

Úr myndasafni
Úr myndasafni

Samanlagður fjöldi kennsludaga og prófadaga nemenda í framhaldsskólum skólaárið 2008-2009 var á bilinu 164 til 185 eftir skólum, en að meðaltali 174,7. Þetta er svo til óbreyttur fjöldi daga frá fyrra skólaári. Þetta kemur fram í upplýsingum frá framhaldsskólunum til Hagstofu Íslands.

Kennsludagar skiptast í reglulega kennsludaga og aðra kennsludaga. Reglulegir kennsludagar voru frá 142 til 179 eftir skólum og stafar munurinn af mismunandi skipulagi skólastarfsins. Meðalfjöldi reglulegra kennsludaga var 147,4 sem er fækkun um 0,2 daga frá fyrra skólaári. Reglulegir kennsludagar voru að meðaltali 2,5 fleiri á vorönn en á haustönn. Að auki voru aðrir kennsludagar 2,2 að meðaltali.

Dagar sem einungis var varið til prófa og námsmats voru frá 8 til 30 að tölu, með einni undantekningu. Flestir skólar eru með ákveðinn prófatíma en í öðrum skólum fara próf fram á kennsludögum. Að meðaltali var 25 dögum varið til prófa og námsmats sem er óbreyttur fjöldi frá síðastliðnu skólaári.

Í kjarasamningum kennara er gert ráð fyrir samtals 175 kennslu- og prófadögum á níu mánaða starfstíma skóla og að auki fjórum vinnudögum kennara utan árlegs níu mánaða starfstíma. Heildarfjöldi vinnudaga kennara á skólaárinu 2008-2009 reyndist vera frá 175 til 196. Meðalfjöldi vinnudaga kennara var 181,3 og er það fækkun um tæplega einn dag frá  síðastliðnu skólaári. Þar af voru vinnudagar kennara að meðaltali 178,3 á árlegum starfstíma skóla.

Sérdeildir starfa við 21 skóla
Í gagnasöfnun um skólahald er einnig spurt hvort sérdeild sé starfandi við skólann eða ekki. Fram kemur að sérdeild er starfandi við 21 framhaldsskóla og er fjöldinn óbreyttur frá fyrra ári.

Þá er einnig spurt um form kennslunnar, hvort í skólanum sé áfangakerfi eða bekkjarkerfi. Þegar þær upplýsingar eru skoðaðar kemur fram að bekkjarkerfi er við lýði í 6 framhaldsskólum á landinu.

Frétt Hagstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert