10 vikna umfjöllun að ljúka

Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustóli Alþingis í morgun.
Jóhanna Sigurðardóttir í ræðustóli Alþingis í morgun.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í morgun, að 10 vikna umfjöllun Alþingis um ríkisábyrgð vegna Icesave-lánasamninganna væri nú að ljúka. Sagði hún verkefnið nú að sannfæra viðsemjendur Íslands um að þjóðin væri ekki að hlaupast undan ábyrgð heldur að axla hana en þó með þeim hætti að undir henni yrði risið.

Sagðist Jóhanna vera vongóð um að Bretar og Hollendingar sýni málinu nú fulla sanngirni og skilning. Alþekkt væri að þjóðþing settu fyrirvara við alþjóðlega samninga.

Jóhanna sagði, að ríkisábyrgðin vegna Icesave væri stærsta einstaka fjárhagslega skuldbinding, sem íslenska ríkið hefði tekið á sig. Icesave-deilan væri eitt erfiðasta mál sem íslensk stjórnvöld hefðu tekist á við á síðari tímum, ekki síst vegna þess að skuldbinding ætti rætur að rekja til óábyrgrar íslenskrar bankastofnunar á erlendri grund. Miklir hagsmunir væru í húfi fyrir Ísland og það hefði reynt mjög á þing og þjóð.

„Við skulum snúa okkur að því að hleypa krafti í íslenskt efnahagslíf þannig að engar byrðar verði of þungar á næstu 15 árum," sagði Jóhanna.

Ríkisstjórnin þarf að bera málið sjálf 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að engum dyldist lengur, að ekki væri á ferðinni sama málið og ríkisstjórnin lagði upp með í júlí. Sagði hann, að ríkisstjórnin hefði fallið á þessu prófi með því að fallast á skuldbindingar vegna Icesave án nokkurra fyrirvara. Þingið hefði tekið völdin í málinu.

Bjarni sagði, að meginniðurstaðan sé að eðlilegt sé að samningarnir verði endurgerðir. Í þeim viðræðum yrðu samningarnir lagaðir að þeim sjónarmiðum, sem komið hefðu fram í umfjöllun Alþingis. Sagðist Bjarni taka undir með Jóhönnu, að Bretar og Hollendingar eigi að horfast í augu við að fyrirvarar Íslendingar séu sanngjarnir og að þeir eigi að fallast á þá. Verði það ekki niðurstaðan verði Íslendingar að fá skorið úr því fyrir hlutlausum dómstólum hverjar skuldbindingar Íslands séu á grundvelli Evróputilskipunar um innistæðitryggingakerfi.

Sagði Bjarni, að sjálfstæðismenn myndu styðja breytingartillögurnar við frumvarpið en ríkisstjórnin þurfi sjálf að bera málið uppi við endanlega afgreiðslu.

Enn berast ábendingar um galla 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að enn bærust ábendingar um gallana á Icesave-samningunum. Síðast í nótt hefði hann fengið ábendingar frá manni, sem hefði skoðað samningana og fundið á þeim slíka galla, að það ætti að fresta umræðunni í dag.

Sagði Sigmundur Davíð, að ekki einn einasti maður með menntun í enskum lögum væri búinn að skoða fyrirvarana fyrir Alþingi.  

Hann sagði að þær fjárhagslegu skuldbindingar, sem fælust í Icesave-samningunum, myndu setja allt félagslega kerfið á Íslandi í uppnám. Nefndi Sigmundur Davíð sem dæmi, að aðeins 13 klukkustunda vextir af Icesave-láninu hafi sett allt í uppnám innan lögreglunnar vegna niðurskurðar þar. 

Holta-Þórir Icesave-málsins

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að stór orð hefðu fallið og miklar túlkanir og söguskýringar komið fram. Þær hefðu hins vegar verið um lánasamninginn en ekki vandamálið sjálft.

„Ég tel ekki, að sú söguskýring muni halda lengi, að gera þá að sökudólgum í þessu máli, sem hafa reynt að leysa það," sagði Steingrímur.

Það væri þó ánægjulegt, að flestir teldu sig hafa náð miklum árangri og að málið hefði verið betrumbætt. Þá gætu væntanlega flestir verið ánægðir ef þeir telji að þeir hafi lagt gott að mörkum, með sínum störfum. „Og flestir væru orðnir einhverskonar sigurvegarar í málinu, nema náttúrulega ég," sagði Steingrímur.  Sagðist hann taka það hlutskipti að sér með glöðu geði að setjast ystur virðingarmanna. „Ég skal vera Holta-Þórir þess máls og setjast fjærst háborðinu ef það gleður aðra. Mér hefur aldrei gengið neitt annað til í þessu máli en það eitt að leysa það," sagði Steingrímur.

Tímabært að hefja endurreisnina

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sagði að kominn væri tími til að ríkisstjórnin setti heimilin á oddinn. Kominn væri tími til að hefja endurreisnina.

Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, sagðist hafa skoðað Icesave-samninginn á raunsæjan hátt og litið hann realpólitískum augum.  Sín niðurstaða væri sú, að samningurinn væri verri lausn en vandamálið sjálft væri í rauninni. Því muni hann greiða atkvæði gegn frumvarpinu um ríkisábyrgð.

Bein útsending frá Alþingi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert