Segja bæði kosti og galla fylgja hugmyndum Stiglitz

Joseph Stiglitz
Joseph Stiglitz mbl.is/Golli

Greining Íslandsbanka telur að hugmynd bandaríska hagfræðingsins Joseph Stiglitz um að breyta verðtryggingu húsnæðislána hafi tvo kosti helsta fyrir lántakendur í för með sér. Hins vegar hafi þetta einnig stóra ókosti.

Hugmynd Stiglitz er sú að öllum verðtryggðum lánasamningum verði breytt á þá lund að þeir miði við launavísitölu í stað vísitölu neysluverðs.

„Slíkt fyrirkomulag hefur tvo kosti helsta fyrir lántakendur. Í fyrsta lagi verður meira samræmi í þróun greiðslugetu og greiðslubyrði ef miðað er við launaþróun en ef verðlag er viðmiðið.

Einnig eru minni sveiflur í þróun launavísitölu en vísitölu neysluverðs frá einu ári til annars. Frá ársbyrjun árið 1991 hefur ársbreyting launavísitölunnar sveiflast á bilinu 0,8 - 13,1% en sambærilegt bil fyrir vísitölu neysluverðs er -0,1 - 18,6%.

Breytingar á launavísitölu fylgja auk heldur hagsveiflunni á meðan verðbólgan hefur tilhneigingu til að hækka snarpt í kjölfar falls krónu á samdráttartímum, og auka þar með við erfiðleika skuldara á samdráttartímum. Fyrirkomulag Stiglits gæti því stutt betur við hagstjórnina hvað þetta varðar en núverandi fyrirkomulag gerir," samkvæmt Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Venjulega hækkar launavísitalan umfram verðbólgu

Greining Íslandsbanka telur hins vegar að meðal ókosta sé að þótt launavísitala hækki lítið þessa dagana, á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað ört undanfarið, leiðir skoðun á lengri tímabilum hið gagnstæða í ljós.

„Til langs tíma litið eykst kaupmáttur launa eftir því sem framleiðni vinnuaflsins eykst. Frá ársbyrjun 1991, þegar áhrif þjóðarsáttar voru að mestu leyti komin fram, til júlí í ár jókst kaupmáttur launa að jafnaði um 1,5% á ársgrundvelli. Launavísitalan hefur þannig hækkað um 29% umfram hækkun vísitölu neysluverðs á tímabilinu, þrátt fyrir neikvæða kaupmáttarþróun undanfarið.

Hefðu íbúðalán almennt verið tengd launavísitölu í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar hefði höfuðstóll þeirra og greiðslubyrði því hækkað að sama skapi hraðar. Það kann því að vera skammgóður vermir fyrir lántakendur að viðmiði verðtryggðra lána verði breytt á þennan hátt.

Þá eru ótalin þau neikvæðu áhrif sem slík einhliða ákvörðun um veigamikla breytingu á skuldabréfamarkaði gæti haft á traust fjárfesta á markaðinum. Má þar nefna lífeyrissjóði, sem leggja til drjúgan hluta fjármögnunar íbúðalána, bæði beint og í gegn um kaup sín á íbúðabréfum. Þess má geta að lánveitendur verðtryggðra íbúðalána bjóða allir upp á greiðslujöfnun, sem byggir á tengingu við launavísitölu og atvinnustig en hefur hins vegar ekki þau varanlegu áhrif á þróun höfuðstóls sem leið Stiglitz myndi hafa."

Ekki hrifnir af lengingu lána

Stiglitz nefnir einnig að samhliða breytingu verðtryggingar ætti að lengja lánstíma íbúðalána verulega og lækka með því greiðslubyrðina.

„Á þessari hugmynd er sá hængur að svonefnd jafngreiðslulán, stundum kölluð annuitetslán, eru útbreiddasta form verðtryggðra lána á Íslandi. Það fyrirkomulag lágmarkar greiðslubyrði í upphafi lánstíma en á móti kemur að afar hægt gengur á höfuðstól lánsins á fyrri helmingi lánstímans. Lenging slíkra lána hefur því fremur lítil áhrif á greiðslubyrði vegna þeirra, en seinkar eignamyndun og leiðir til hærri heildargreiðslna af lánunum.

Má segja að það fyrirkomulag sem ráðandi hefur verið á íbúðalánamarkaði undanfarna áratugi gangi þegar lengra en góðu hófi gegnir í þá átt að lágmarka greiðslubyrði á kostnað eignamyndunar, þótt frekari skref séu ekki stigin í þá átt," að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert