Þjófarnir voru með sérútbúnað

mbl.is/Júlíus

Lögreglan í Borgarnesi handtók í dag þrjá Litháa sem voru með stolið staðsetningartæki sem þeir höfðu skráð í heimilisföng ýmissa verslana um landið. Starfsfólki Hagkaups í Borgarnesi þótti mennirnir grunsamlegir og gerði lögreglu viðvart.

Starfsfólkið tók niður númerið á bíl Litháanna og fann lögreglan þá skömmu eftir að þeir yfirgáfu verslunina.

Litháarnir voru með sérstakan búnað til þess að komast út úr verslunum með þýfi án þess að þess yrði vart, að því er lögreglan greinir frá.

Auk staðsetningartækisins, sem stolið hafði verið úr bíl í Mosfellsbæ, fann lögreglan fartölvu og aðra hluti í bíl Litháanna sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og eru með íslenska kennitölu.

Lögreglan í Borgarnesi beinir þeim tilmælum til fólks að læsa híbýlum sínum og bifreiðum þar sem ljóst sé að þjófagengi séu á ferð um landið. Lögreglan biður einnig þá sem verða vara við grunsamlegar mannaferðir að láta hana vita.

Í kvöld stöðvaði lögreglan í Borgarnesi réttindalausan ökumann sem ók undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert