OR segir sölu á HS Orku í samræmi við lög

Orkuver HS Orku í Svartsengi.
Orkuver HS Orku í Svartsengi.

Orkuveita Reykjavíkur segir, að enginn vafi leiki á því að Magma Energy Sweden AB hafi verið heimilt að kaupa hlut Orkuveitunnar í HS Orku. Segir OR að við setningu laga, sem um málið gildi, hafi beinlínis verið gert ráð fyrir því, að lögaðili utan Evrópska efnahagssvæðisins geti átt fyrirtæki innan þess og þar með öðlast rétt til fjárfestinga hér á landi, m.a. í orkufyrirtæki.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag var haft eftir fulltrúa í nefnd um erlendar fjárfestingar, að svo virðist sem Magma Energy hafi stofnað fyrirtæki í Svíþjóð til þess að fara í kringum íslensk lög um erlendar fjárfestingar. Nefndin ræði fljótlega hvort Magma uppfylli skilyrði laganna. 

Orkuveitan segir, að með lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hafi ekki verið komið í veg fyrir fjárfestingu útlendinga á Íslandi heldur þvert á móti veri að rýmka heimildir. Í frumvarpinu segi, að nefndin sem samdi frumvarpið telji að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref í þá átt að erlent áhættufé geti í ríkara mæli komið í staðinn fyrir erlent lánsfé við fjármögnun atvinnurekstrar hér á landi. Frumvarpið muni því, ef að lögum verði, hafa mikilvæg áhrif á vaxtar - og þróunarskilyrði atvinnufyrirtækja innan fjölmargra atvinnugreina.

Þá vísar Orkuveitan í  athugasemdir með frumvarpi um  breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem lögfest var árið 1996. Þar segi, að tilgangur laganna sé að laga reglur um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi að ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í athugasemdum með frumvarpinu segi orðrétt um þá aðila, sem fjárfesta mega í íslenskum orkuiðnaði: „Þeir aðilar sem hér um ræðir eru einstaklingar sem búsettir eru og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru EES-ríki. Ríkisfang einstaklings eða ríkisfang eigenda lögaðila skiptir hér ekki máli."

„Það er því alrangt sem haldið hefur verið fram að verið sé að fara í kringum íslensk lög með því að sænskt félag í eigu kanadískra aðila kaupi hluta í íslensku orkufyrirtæki," segir Orkuveitan á heimasíðu sinni. „Þvert á móti er ljóst af athugasemdunum, sem getið er hér að ofan, að ríkisfang eiganda lögaðila með heimilisfesti á Evrópska efnahagssvæðinu skipti ekki máli. Eina krafan sem er gerð, er að lögaðili hafi heimilisfesti innan Evrópska efnahagssvæðisins til að viðkomandi sé heimilt að fjárfesta í íslenskum orkufyrirtækjum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert