Árnastofnun fær 28 handrit frá Iðunni

Steindór Andersen
Steindór Andersen Árni Sæberg

Árnastofnun fær að gjöf 28 handrit frá Kvæðamannafélaginu Iðunni frá tímabilinu 1820 til 1870 og er það í tilefni af 80 ára afmæli félagsins. „Handritin hafa safnast upp á löngum tíma í bókasafni Iðunnar,“ segir Steindór Andersen, formaður Iðunnar, sem afhendir handritin við hátíðlega athöfn kl. 16 í dag.

„Þarna kennir ýmissa grasa, meðal annars eru rímur sem ekki er að finna í Rímnatali Finns Sigmundssonar, svo sem rímur af Friðriki barbarósa og af Hróaldi,“ segir Steindór. „Fleiri rímur eru þarna, sem ekki eru til í mörgum handritum, og fátt af þeim hefur verið prentað. Þó finnst mér merkilegast handrit frá 1830 sem Ólafur „stúdent“ Ólafsson skrifaði. Það er afskaplega fallegt rit með rímum af Andra jarli eftir Hannes Bjarnason á Ríp og Gísla Konráðsson. Þar er hendingin:

Högni laut en hauðrið flaut í hrugnis blóði:

eitthvað tautar Andri í hljóði,

óð sem naut að stála rjóði.“

Steindór segir rímurnar betur komnar á Árnastofnun enda hafi þær farið á milli húsa í áratugi eftir því hver tók að sér að vera bókavörður félagsins. „Það er óverjandi enda eru þarna handrit sem eru einstök og ekki til í öðrum útgáfum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert