Óþolinmæðin og örvæntingin mikil

„Það er afar mikilvægt að í aðgerðum ríkisstjórnar gildi raunhæfar og sanngjarnar reglur. Jafnframt þarf að tryggja gagnsæi. Þess vegna má ekki leysa fjárhagsvanda heimilanna í bönkunum og þá meira eða minna á þeirra forsendum,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

Hann segir stöðu heimilanna með öllu óviðunandi, hún versni með hverjum degi. Fjölmörg heimili geti ekki lengur séð fjölskyldunni farboða og greitt skuldir um leið. Allt of mörg heimili séu í fjárhagslegri upplausn með öllum þeim vanda sem því fylgir.

Formaður Neytendasamtakanna segir ljóst að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa þegar gripið til gagnvart fjárhagsvanda heimilanna hafi ekki skilað árangri fyrir alla. Málum hafi í raun bara verið frestað og eina varanlega úrræðið, greiðsluaðlögun sé að mörgu leiti gallað.

„Án efa þarf að bæta lög um greiðsluaðlögun mikið fyrir heimili í verulegum greiðsluvanda, en um leið þyrfti að færa þessa löggjöf til félagsmálaráðuneytisins. Þar eiga þau heima því þá yrði greiðsluaðlögun ekki lengur hluti af gjaldþrotalögum enda um félagslegt úrræði að ræða,“ segir Jóhannes Gunnarsson.

Hann segir öll spjót standa á ríkisstjórninni. Heimilin hafi beðið lengi svara um hvað gera eigi vegna vanda heimilanna. Óþolinmæðin og örvæntingin sé orðin mikil.

„Það er ljóst að erfitt verður að ná sátt sem allir geta unað. En það er jafn ljóst að það þarf að hjálpa mörgum heimilum. En við verðum þó að fara leið sem víðtækust sátt ríkir um og sem skilar mestum árangri. Ekki síst hjá þeim sem eru að kikna undan myntkörfulánunum og líka þeim sem ekki ráða við hækkanirnar á verðtryggðum lánum. Í mörgum tilvikum þarf að fella niður höfuðstól að hluta,“ segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna.

Vefsíða Neytendasamtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert