Ráðherranefnd um Evrópumál

Forsætisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær skipan ráðherranefndar um Evrópumál.  Í nefndinni eiga sæti forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra. Aðrir ráðherrar koma inn í nefndina eftir ástæðum, t.d. þegar fjallað er um þeirra málaflokka.

Nefndin mun að tillögu utanríkisráðherra skipa samningahópa til viðræðna vegna umsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

Með skipan nefndarinnar er ætlunin að tryggja yfirsýn þeirra ráðherra sem þurfa að fylgjast heildstætt með framvindu umsóknar Íslands um aðild að ESB. Nefndin verður vettvangur pólitísks samráðs, samræmingar og undirbúnings ákvarðana ríkisstjórnar.

Unnt verður að kalla til sérfræðinga, fulltrúa stjórnarandstöðu og hagsmunaaðila eftir þörfum. Skipan ráðherranefndarinnar er í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að forsætisráðuneytið fái aukið forystu-, verkstjórnar- og samræmingarhlutverk m.a. með stýringu samráðsnefnda ráðherra.

Í kjölfar afgreiðslu Alþingis á þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og ákvörðunar ráðherraráðsins um að vísa umsókn Íslands áfram til framkvæmdastjórnar ESB er unnið að undirbúningi og skipulagi vinnu þar að lútandi.

Samkvæmt skipuriti viðræðnanna er gert ráð fyrir níu samningahópum um einstaka kafla; byggða- og sveitastjórnarmál, EES-kafla, fjárhagsmál, innanríkismál, landbúnaðarmál, myntbandalag, sjávarútvegsmál, utanríkis- og öryggismál og lagaleg málefni og samningsdrög. Enn fremur er gert ráð fyrir að settur verði á laggirnar samráðshópur sem samanstandi af breiðum hópi hagsmunaaðila auk fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert