Hæstiréttur lækkar bætur um helming

Þorkell Þorkelsson

 Hæstiréttur lækkaði í dag bætur sem Vátryggingafélagi Íslands var gert að greiða konu vegna tjóns sem hún hafði orðið fyrir þegar brotist var inn í bifreið hennar, henni stolið og hún eyðilögð. Í Héraðsdómi Reykjavíkur var talið að Al-kaskótrygging ætti að bæta konunni tjónið að fullu en samkvæmt dómi Hæstaréttar voru bæturnar lækkaðar vegna brota varúðarreglu í vátryggingaskilmálum.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að leggja bæri til grundvallar frásögn umráðamanns bifreiðarinnar, sonar konunnar, um að hann hefði læst bifreiðinni er hann skildi við hana og að aukalyklar að kveikjulás hennar hefðu verið í hanskahólfinu. Með því að geyma kveikjuláslyklana í hanskahólfi bifreiðarinnar hefðu lyklarnir ekki verið geymdir á öruggum geymslustað, jafnvel þótt bifreiðin hefði verið læst. Hefði umráðamaður bifreiðarinnar því brotið varúðarreglu í vátryggingaskilmálum VÍS þess efnis að „geyma ... lykla á öruggum stað“ og gæti ábyrgð félagsins því fallið niður í heild eða að hluta, sbr. 26. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004.

Talið var að með háttseminni hefði umráðamaðurinn sýnt af sér gáleysi, sem telja yrði verulegt, en ekki væri áskilið að stórkostlegt gáleysi þyrfti til. Yrði konan að sæta því að réttur hennar til bóta myndi skerðast. Við mat á því hve mikil sú skerðing ætti að vera bæri að líta til þess að þótt gáleysið væri verulegt, átti vátryggingaratburður sér stað nokkrum klukkutímum eftir að bifreiðinni var lagt í bifreiðastæði við heimili umráðamanns hennar og að honum hefði ekki verið unnt að sporna við því að þeir sem tóku bifreiðina, brytu sér leið inn í hana. Var bótaskylda VÍS því viðurkennd á helmingi þess tjóns sem konan varð fyrir.

Var málskostnaður felldur niður fyrir héraði og í Hæstarétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert