Segja að ríkisábyrgð taki ekki gildi

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins segir í ályktun, sem samþykkt var í á fundi í kvöld, að höfnun Breta og Hollendinga á þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í lok ágúst við Icesavesamningana, feli í sér að ríkisábyrgð vegna skuldbindinganna taki ekki gildi.

Að sögn oddvita stjórnarflokkanna í dag óskuðu Bretar og Hollendingar eftir því, að farið yrði með þær hugmyndir, sem þeir hafa um fyrirvara við ríkisábyrgðina, sem trúnaðarmál. En Reutersfréttastofan hafði í kvöld eftir ónafngreindum heimildarmanni í fjárlaganefnd Alþingis, að Bretar og Hollendingar væru andvígir þeim fyrirvara, að yrði ekki lokið við að greiða af lánum sem Englendingar og Hollendingar veita Íslendingum vegna Icesave-skuldbindinga, fyrir árið 2024 þá þurfi að semja að nýju um eftirstöðvarnar. 

Ályktunin Sjálfstæðisflokksins er eftirfarandi:

„Höfnun Breta og Hollendinga á þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í lok ágúst við Icesavesamningana, felur í sér að ríkisábyrgð vegna skuldbindinganna tekur ekki gildi.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins telur að ekki komi til greina að hverfa frá þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti vegna ríkisábyrgðarinnar.

Ríkisstjórn Íslands hefur ekki heimild til að víkja frá þeim skýru fyrirvörum sem gildandi lög kveða á um.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert