Fréttaskýring: Sveitarstjórnarmenn vilja skoða fleiri leiðir

mbl.is/Skapti

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra lagði á sumarþinginu fram frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna. Eftir sem áður verður kosið milli lista. En viðamesta breytingin felst í þessari grein frumvarpsins: „Á framboðslista skulu vera að minnsta kosti jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á sem aðalmenn í sveitarstjórn en aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Efstu sæti listans skulu skipuð frambjóðendum sem boðnir eru fram til persónukjörs og skal tala þeirra vera jöfn tölu aðalmanna. Þessi hluti listans nefnist persónukjörshluti.“

Allsherjarnefnd Alþingis hefur málið til umfjöllunar. Hyggst nefndin leggja mikla vinnu í málið sem sjá má af því, að hún hefur sent 106 aðilum umsagnarbeiðnir. Nú þegar hafa borist 23 svör. Allsherjarnefnd þarf að vinna hratt og vel því sveitarstjórnarkosningar eiga að fara fram 29. maí á næsta ári. Kosningarnar þarfnast mikils undirbúnings og því er ljóst að Alþingi verður að vinna í kappi við tímann.

Meðal þeirra sem hafa skilað athugasemdum er sá aðili sem málið varðar helst, Samband íslenskra sveitarfélaga. Segir m.a í athugasemdum sambandsins að af fyrstu viðbrögðum megi ráða að skiptar skoðanir séu meðal sveitarstjórnarmanna um málið. „Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga virðist sú hugmynd njóta töluverðs stuðnings að kveða á þessu stigi aðeins á um heimild sveitarstjórna til þess að ákveða að viðhafa persónukjör fremur en skylda öll sveitarfélög til þess að taka upp þá kosningaaðferð. Binda mætti slíka ákvörðun því skilyrði að aukinn meirihluti í sveitarstjórn samþykkti slíka tillögu. Með því móti mætti gera tilraun með persónukjör í nokkrum sveitarfélögum við næstu sveitarstjórnarkosningar og meta í framhaldinu hvort ástæða væri til að lögfesta persónukjör við sveitarstjórnar- og alþingiskosningar.“

Þessi umsögn sýnir að sveitarstjórnarmenn eru hikandi.

Í umsögninni tíundar Samband íslenskra sveitarfélaga ýmsa ókosti persónukjörsins. Má þar nefna hættuna á innbyrðis átökum innan framboðslista í aðdraganda kosninganna þegar fleiri en einn frambjóðandi sækist eftir öruggu sæti. Eins geti kjósendur staðið frammi fyrir mikilli óvissu þegar ekki liggi skýrt fyrir hver er leiðtogaefni viðkomandi framboðslista.

Meðal þess sem sveitarstjórnarmenn benda á er að persónukjör tryggi á engan hátt að jafnræði verði á milli kynjanna á efstu sætum framboðslistanna. Um þetta atriði fjallar einmitt umsögn Kvenréttindafélags Íslands. Þar segir m.a: „Í því ljósi krefst stjórn KRFÍ að kynjajafnrétti verði tryggt á framboðslistum með því að setja kynjakvóta fyrir hvern lista eða með öðrum hætti að tryggja að hlutur kvenna, sem oftar en ekki hallar á, sé tryggður með sérstökum aðgerðum, nema um sérstök kvenna- og karlaframboð sé að ræða.“ Það er svo spurning hvort hægt verður að kalla það persónukjör þegar „persónurnar“ sem fólk kýs ná ekki kjöri vegna kynjakvóta?

Úrslit geta dregist 

Verði persónukjör að veruleika mun talning atkvæða verða mun tímafrekari en áður. Telur Samband íslenskra sveitarfélaga í umsögn sinni að niðurstaða kosninga í fjölmennustu sveitarfélögunum muni jafnvel ekki liggja fyrir fyrr en einhverjum sólarhringum eftir kjördag.

Í umsögninni segir að frumvarpið feli í sér fremur flóknar reikniaðferðir við röðun frambjóðenda og því sé mikilvægt að þróa forrit til að flýta fyrir talningu.

Í umsögn bæjarráðs Akureyrar er bent á það að forgangsröðun á lista geti tekið langan tíma fyrir kjósanda í kjörklefa og því sé hætt við að raðir myndist við kjördeildir og öngþveiti verði á kjörstað. Á Akureyri þyrfti t.a.m. að fjölga í undirkjörstjórnum, fjölga kjörklefum eða gera jafnvel enn stórtækari breytingar.

Allt þetta verður kostnaðarsamt og sveitarfélögin munu bera þann kostnað. Því vilja þau að ríkið taki þátt í kostnaði að hluta a.m.k.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert