Uppgjöf meðal atvinnurekenda

Að sögn Andrésar er staða íslensku krónunnar lykilatriði, enda Íslendingar …
Að sögn Andrésar er staða íslensku krónunnar lykilatriði, enda Íslendingar mjög háðir innflutningi. mbl.is/Golli

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segist verða var við aukna uppgjöf meðal atvinnurekenda í landinu. Ár sé liðið frá bankahruninu og á þessum tíma hafi stjórnvöld ekki kynnt neinar aðgerðir til að létta undir atvinnulífinu, og þar með heimilunum.

„Það sem stjórnvöld hafa komið með til lausnar á vanda atvinnulífsins, er bara ekki þess eðlis að það gefi tilefni til neinnar sérstakrar bjartsýni,“ segir Andrés í samtali við mbl.is. Það komi því ekkert á óvart að atvinnurekendur séu að missa móðinn í ljósi aðgerðarleysis stjórnvalda og síhækkandi lána.

Fréttir berast reglulega af því að fyrirtæki séu að fara í þrot vegna efnahagsástandsins og veikrar krónu. „Allar þessar fréttir um að menn séu að loka, er í raun og veru ákall til stjórnvalda. Og á að sýna stjórnvöldum hvað ástandið er orðið gífurlega alvarlegt,“ segir Andrés og bætir við að ótrúlega langur tími hafi nú liðið frá hruninu án þess að raunhæfar lausnir hafi verið lagðar fram til aðstoðar atvinnulífinu.

„Staðan á gengi gjaldmiðilsins er það sem er að keyra allt í kaf hérna. Við erum mikið háð innflutningi,“ segir hann. Því skipti gengi íslensku krónunnar jafn miklu sem raun beri vitni.

Andrés segir að samstarfið við íslensku bankana sé gott. Bankarnir séu að vanda sig við endurreisn íslensks atvinnulífs. „Við teljum að þeir séu virkilega að reyna að gera þetta á eins faglegan hátt og þeir mögulega geta gert. Og þetta er ekkert auðveld vinna,“ segir hann.

Andrés segist hafa þær upplýsingar frá bankakerfinu að á milli 70-80% fyrirtækja hérlendis séu með erlend lán, sem séu bundin við svissneska franka og japönsk jen. Hann segir að staðan sé góð hjá um þriðjungi fyrirtækjanna, sem hafi ekki tekið slík lán. Þriðjungur fyrirtækjanna sé hins vegar á leiðinni í þrot. Þarna mitt á milli sé síðasti þriðjungurinn, og nú reyni bankarnir að koma þeim til aðstoðar.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ).
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). mbl.is/Valdís Thor
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert