Óhyggilegt að afþakka aðstoð AGS

Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason. mbl.is/Golli

Þorvaldur Gylfason, prófessor, segir að það væri mjög óhyggilegt að afþakka frekari aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Við það myndi traust umheimsins á Íslandi þverra til muna," sagði Þorvaldur í Silfri Egils í Sjónvarpinu. 

„Setjum svo að við ættum kost á því að Norðurlöndin eða Noregur einn myndi skaffa það fé, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlaði að koma með hingað hinn. Þá værum við að ætlast til þess, að heimurinn taki jafnmikið mark á Norðmönnum og hann tekur á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég held að, þrátt fyrir mikla og verðskuldaða virðingu sem umheimurinn ber fyrir Norðmönnum, þá kæmi það ekki í sama stað niður," sagði Þorvaldur.

Hann sagði að Íslendingar þurfi gjaldeyrislánin, sem samið hefur verið um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Norðurlöndin. Hann sagði að Alþingi hefði tekið fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni varðandi Icesave-samningana og það væri ástæðan fyrir því að efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði ekki gengið eftir til fulls og lánin væru ekki í höfn.

Sagði Þorvaldur að þetta skapaði tvíþætta hættu. Annars vegar að ekki væri til nægur gjaldeyrisforði í landinu til að tryggja að Íslendingar geti staðið við skuldbindingar sínar og hinsvegar að þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt verði ekki til nægur gjaldeyrir til að forða hættu á gengisfalli krónunnar.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í þættinum, að hann teldi að áætlunin, sem sett var upp með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé allt of brött. Íslendingum sé gert samkvæmt henni að draga allt of mikið saman og það gæti búið til einhverskonar vítahring.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði ekkert lært af reynslunni og nálgaðist hlutina á sama hátt hér og í öðrum löndum. Þá hefði sjóðurinn komið fram eins og innheimtustofnun fyrir stóra erlenda fjármagnseigendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert