Flatur niðurskurður á Landspítala hættulegur

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar

Sá flati niðurskurður sem stefnt er að á Landspítalanum er hættulegur, að mati Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítalans. „Við höfum aðeins einn slíkan spítala á Íslandi, sem er öryggisnet fyrir allt landið. Þess vegna verður fyrst að leita allra leiða til að ná heildarhagræðingu í heilbrigðiskerfinu.“

Hún segist alltaf hafa verið á móti flötum niðurskurði. „Það er auðveldasta leiðin, en þá er ekki tekið á vandanum. Það þarf að gera stærri breytingar á þjónustu spítalanna og auðvitað er Landspítalinn þar ekki undanskilinn. En ef ráðist er í uppsagnir á 450-500 manns á Landspítalanum, þá hefur það áhrif á öryggisnetið. Samkvæmt nýlegri úttekt erum við með þriðju mestu gæðin í heilbrigðisþjónustu á OECD-svæðinu, og eflaust höldum við því ekki, en ég vil að þjónustan sé nógu góð. Við vitum að það verður ekki bara niðurskurður á næsta ári, heldur líka árin 2011 og 2012. Þess vegna verður að gera það sem rétt er og hagkvæmt.“

Hulda hefur skilað af sér aðgerðaáætlun til heilbrigðisráðuneytisins, sem hún vann ásamt fleiri sérfræðingum. „Þar er nákvæm heildarverkefnaáætlun fyrir árið 2010 með aðaláherslu á Kragasjúkrahúsin, sem unnin var í samráði við stjórnendur þar. En það þarf að fara yfir alla starfsemina, spítala og heilsugæslustöðvar, og einnig stjórnsýsluna, heilbrigðisráðuneytið, landlæknisembættið, lýðheilsustöð og sérfræðiþjónustuna. Það þarf að búa til aðgerðaáætlun til þriggja ára um það hvernig mæta má þeim fjárhagslega niðurskurði sem ráðast þarf í vegna kreppunnar,“ segir Hulda.

Í áætluninni sem verkefnahópurinn hefur skilað af sér, og bar yfirskriftina „Frá orði til athafna“, var miðað við að ráðherra gæti tekið ákvarðanir strax 9. október.

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert