Gálgahraun og Skerjafjörður formlega friðlýst

Skerjafjörður
Skerjafjörður

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar munu í dag staðfesta friðlýsingu Gálgahrauns og Skerjafjarðar innan lögsögu Garðabæjar.

Skerjafjörður verður friðlýstur sem búsvæði og nær friðlýsing til fjöru og grunnsævis alls 427 hektara á sjó og landi. Nær sú friðlýsing einnig til fjöru og grunnsævis undan Garðaholti. Skerjafjörður er mikilvægur viðkomustaður farfugla og hefur alþjóðlegt verndargildi vegna fuglategunda eins og rauðbrystings og margæsar. Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda lífríki og að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins, að því er segir í tilkynningu.

Gálgahraun verður friðlýst sem friðland alls 108 hektarar og er umrætt svæði nyrsti hluti svokallaðra Búrfellshrauna sem runnu frá eldstöðinni Búrfelli fyrir rúmum 7000 árum. Verndargildi Gálgahrauns liggur ekki síst í því hversu ósnortið það er sem þýðir að hraunið er að mestu eins og það var þegar það rann. Forsendur friðlýsingarinnar eru jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar en í hrauninu eru t.a.m. hin forna Fógetagata og Gálgaklettur sem er forn aftökustaður sem hraunið dregur nafn sitt af.

Eftir friðlýsinguna í dag hafa því alls verið friðlýstir 723 hektarar innan bæjarlandsins og á grunnsævi en undirbúningur er hafinn að friðlýsingum 600 frekari hektara sem tilheyra Búrfellshraunum.

Auk þessa lét bæjarstjórn leggja hverfisvernd á Grunnuvötn sem útivistarsvæði og grannsvæði Vífilstaðavatns, alls 222 ha. Þegar upp verður staðið, verða því um 1500 ha sem munu njóta friðlýsingar eða hverfisverndar í Garðabæ en það nemur um fjórðungi lands í lögsögu Garðabæjar sem er alls 4.096 hektarar, samkvæmt tilkynningu.

Gálgahraun
Gálgahraun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert