Sjálfstæðismenn í Eyjum taka undir með VG á Norðurlandi

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/GSH

Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum taka undir óánægju svæðisfélaga Vinstri grænna í Húnavatnssýslum og Skagafirði með niðurskurð á landsbyggðinni. Segir í ályktun frá fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum að áform um niðurskurð á landsbyggðinni séu langt umfram sem áður hafði verið boðað.

„Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum tekur undir ályktun svæðisfélaga Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Húnavatnssýslum og Skagafirði þar sem framganga forystumanna ríkisstjórnarflokkanna gagnvart landsbyggðinni er hörmuð og skorar á önnur flokksfélög allra flokka að gera slíkt hið sama.

Um leið og það er viðurkennt að allir landsmenn þurfi að taka á sig auknar byrðar nú er því mótmælt að vegið sé að landbyggðinni umfram höfuðborgarsvæðið  með þeim tillögum að niðurskurði sem kynntar hafa verið.  Þensla síðustu ára var á höfuðborgarsvæðinu þar sem ríkisrekstur blés út langt umfram það sem eðlilegt verður að teljast. 

Á sama tíma var hinsvegar skorið niður á landsbyggðinni.
Það er því verið að benda á hið augljósa að nú þegar kreppir að þarf að draga mest saman á höfuðborgarsvæðinu, þar sem svigrúmið er mest. Það er ekki ásættanlegt að loka fámennum þjónustuskrifstofum úti á landsbyggðinni sem verða vart opnaðar aftur þegar betur árar og fella niður grunn þjónustu svo snjómokstur. Fitulagið liggur nánast allt á höfuðborgarsvæðinu og þar þarf að skera niður.

Áform um niðurskurð á opinberri þjónustu í Vestmannaeyjum og víðar á landsbyggðinni eru langt umfram þau viðmið sem boðuð hafa verið á landsvísu og bera það leynt og ljóst með sér að unnið er að flutningi verkefna og starfa til höfuðborgarsvæðisins, svo sem með niðurlagningu sýslumannsembætta, skattstofa, embættis lögreglustjóra og héraðsdómstóla án þess að haldbær rök hafi verið færð fyrir sparnaði af slíkum tilflutningi.

Tillögur sem fela í sér upplausn stjórnkerfisins, aukna embættismannavæðingu og miðstýringu frá höfuðborgarsvæðinu eru að auki til þess fallnar að rjúfa tengsl við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og takmarka möguleika landsbyggðarinnar til að nýta auðlindir sínar og mannauð svo sem með boðaðri fyrningaleið og margskonar hindrunum á atvinnuuppbyggingu svo sem í stóriðju.

Af sama toga eru hugmyndir forkólfa svokallaðrar sóknarnefndar forsætisráðherra. Þar fer fólk sem ekki hefur skilning á eðli landsbyggðarinnar og það því verulega ámælisvert að þeim skuli falið að stýra aðgerðum er snerta fólk á landsbyggðinni.  Að óbreyttu er verið að boða sóknaráætlun gegn landsbyggðinni."
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert