400 milljónir fengust með sölu á sendiherrabústað

Nýi sendiherrabústaður Íslands í Danmörku er á Fuglebakkevej 70 á …
Nýi sendiherrabústaður Íslands í Danmörku er á Fuglebakkevej 70 á Friðriksbergi. Flatarmál hússins er um 680 fermetrar.

Kostnaður við kaup og endurbætur á nýjum sendiherrabústað Íslands í Danmörku nam 256 milljónum króna. Bústaðurinn, þar sem Svavar Gestsson sendiherra býr ásamt eiginkonu sinni, er á Fuglebakkevej á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn, alls 680 metrar að flatarmáli.

Eldri sendiráðsbústaður í Gentofte, sem ríkið keypti árið 1971, var seldur á síðasta ári fyrir rúmar 653 milljónir króna. Flatarmál hans var um 800 fermetrar.

Mismunurinn á kostnaði við kaup nýja hússins og sölu þess gamla er því um 400 milljónir króna og hefur verið lagður í ríkissjóð samkvæmt svörum frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Morgunblaðsins. Í svarinu segir að markmiðið með sölunni hafi verið að kaupa minna og hagkvæmara hús með tilliti til staðsetningar og reksturs. Ráðist var í töluverðar endurbætur á nýja bústaðnum. Helstu kostnaðarliðir voru vegna málningar og endurnýjunar eldhúss, pípulagna, baðherbergja og raflagna, auk þess sem sundlaug í bakgarði var lokað með því að leggja yfir hana gólf.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert