Þykir vænt um stuðninginn

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segist þakklátur þeim stuðningi sem félagar hans í Suðvesturkjördæmi sýndu honum í dag. Félagar í Vinstri grænum ályktuðu á þann veg að Ögmundur fengi aftur sæti í ríkisstjórn. Ögmundur segir Ísland vera að upplifa „kalda hönd“ AGS.

„Ég er þakklátur yfir þessum stuðningi sem ég fann fyrir. Mér þykir vænt um þetta. Það kom fram á fundinum í Kópavogi í dag einlægur vilji til þess að halda stjórnarsamstarfinu áfram,“ segir Ögmundur.

Ögmundur segir Ísland vera nú að upplifa „kalda hönd“ Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann sé að bregðast okkur og grímulaus notkun Breta og Hollendinga á sjóðnum gagnvart Íslandi sé á margan hátt grafalvarleg. Að sama skapi sé hún óvænt þar sem allir hefðu trúað því að sjóðurinn ætlaði sér að vinna að framgangi efnahagsmála hér, með stjórnvöldum. „Við erum að upplifa mikinn þrýsting frá alþjóðasamfélaginu. Lánadrottnar okkar eru að beita Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gegn okkur. Sjóðurinn er auðvitað sjálfur handrukkari alþjóðafjármagnsins. Við þurfum að gefa okkur tíma til þess að ráða okkar ráðum.“

Ögmundur segir jafnframt að það megi ekki gera lítið úr þeim árangri sem náðist í sumar varðandi Icesave-málið, það er samþykkt fyrirvara við Icesave-samninginn sem takmarka áhrifin af samningnum á Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka