Titringur vegna greinargerða

Birting greinargerða Seðlabanka Íslands og efnahags- og viðskiptaráðuneytis um áhrif tafa á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) olli miklum titringi innan Seðlabankans í gær samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri skiluðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra greinargerð sinni daginn eftir að hún óskaði eftir henni, 5. október sl.

Í greinargerð þeirra kemur m.a. fram að töf á því að AGS endurskoði efnahagsáætlun Íslands, vegna ágreinings við Breta og Hollendinga um Icesave, geti leitt til þess að lánshæfismat Íslands verði lækkað. Það geti síðan leitt til þess að stofnanafjárfestar verði „tilneyddir til þess að selja eignir sínar um leið og færi gefst, vegna þess að þeim er ekki heimilt að fjárfesta í svo lágt metnum eignum“ eins og orðrétt segir í greinargerðinni.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði og fulltrúi í bankaráði Seðlabankans fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, segir birtingu greinargerðar sem þessarar, að forsvarsmönnum bankans forspurðum, geta haft mikil áhrif á alþjóðlega fjármálamarkaði. „Birting á þessum greinargerðum er ekki til þess að styrkja stöðu Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og örugglega til að veikja stöðu Íslands í samningaviðræðum við Hollendinga og Breta vegna Icesave. Ég tel að afleiðingar þess að ganga ekki að skilyrðum í Icesave-málinu og jafnvel að þurfa að þola frekari frestun á þessari svokölluðu fyrirgreiðslu AGS verði ekki nærri eins afdrifaríkar og túlkun forsætisráðherra, meðal annarra, gefur til kynna. Þá mun það augljóslega veikja lánstraust Íslands út á við að takast á við nýjar skuldbindingar,“ segir Ragnar.

Þess er enn beðið að AGS taki efnahagsáætlun Íslands til endurskoðunar. Mikil áhersla er lögð á að lausn verði fundin á Icesave-deilunni fyrir 23. október. Þá mun Tryggingasjóður innstæðueigenda þurfa, í síðasta lagi, að greiða innstæðueigendum. „Verði ekki samið um Icesave-greiðslurnar fyrir 23. október yrði afleiðingin sú að sjóðurinn væri brotlegur við íslensk lög,“ segir í greinargerð efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert