Óljóst hvað verður um kröfu Stapa

Straumur fjárfestingabanki komst í þrot á síðasta vetri.
Straumur fjárfestingabanki komst í þrot á síðasta vetri.

Enn hefur ekki fengist niðurstaða um hvort krafa lífeyrissjóðsins Stapa í þrotabú Straums fjárfestingabanka verður tekin til greina. Vegna mistaka skilaði sjóðurinn ekki inn kröfu upp á fjóra milljarða króna fyrir auglýstan kröfulýsingarfrest.

Til að ná fram kröfunni þarf Stapi að óska eftir því við aðra kröfuhafa að þeir samþykki að taka kröfuna til greina. Upphaflega var gert ráð fyrir að það tæki 2-3 vikur að fá niðurstöðu um málið, en nú er ljóst að það tekur mun lengri tíma að fá botn í það. Á heimasíðu sjóðsins kemur fram að líklega verði ekki ljóst hvernig málið fer fyrr en í fyrsta lagi nóvember.

Verði krafa Stapa ekki tekin til greina er líklegt að ávöxtun sjóðsins rýrni um 2-4%. Heildarstærð lífeyrissjóðsins er um 100 milljarðar króna og sjóðsfélagar eru um 45-50 þúsund.

Í frétt á heimasíðu Stapa kemur fram að búið sé að vinna mikið í innlendu kröfuhöfunum og hafi margir þeirra tekið jákvætt í málaleitan sjóðsins þótt formlegt samþykki sé enn ekki komið. Í þeim efnum þurfi m.a. að bíða stjórnarfunda hjá sumum aðilum. Einnig hafi verið unnið að fullum krafti í því að fá erlendu kröfuhafana til að samþykkja kröfu Stapa, en ljóst er að til að koma kröfunni að þarf samþykki a.m.k. stærstu erlendu kröfuhafanna.

„Samin hefur verið greinargerð um sjóðinn, hvers konar aðili sjóðurinn er, hverjir eru greiðendur til hans og eiga þessa fjármuni o.s.frv. Greinargerðin hefur verið þýdd bæði á ensku og þýsku. Ráðin hefur verið erlend lögmannsstofa Nörr Stiefenhofer Lutz sem er mjög sterk á sviði ráðgjafar gagnvart fjármálafyrirtækjum. Þá hefur erlendur ráðgjafi sem hefur góð tengsl við þá erlendu aðila sem um ræðir einnig verið ráðinn til aðstoðar. Ljóst er hins vegar að það tekur lengri tíma en við gerðum ráð fyrir í upphafi að fá niðurstöðu gagnvart erlendu kröfuhöfunum en hér er í mörgum tilfellum um stórar stofnanir að ræða þar sem ákvarðanaferill getur verið langur,“ segir í frétt frá Stapa. „Á þessari stundu er þó of snemmt að segja til um hvort líkur eru á að farsæl niðurstaða náist eða ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert