27 hælisumsóknir í ár

Málefni hælisleitenda hafa verið mjög í brennidepli að undanförnu. Hér …
Málefni hælisleitenda hafa verið mjög í brennidepli að undanförnu. Hér sést hópur hælisleitenda sem mótmælti fyrir utan Alþingishúsið í vor. mbl.is/Ómar

Tuttugu og sjö umsóknir um hæli hafa borist Útlendingastofnun á þessu ári, þ.e. til 1. október sl. Af þeim hafa 9 umsækjendur dregið umsóknir sínar til baka eða horfið af landi brott. Í 8 málum var tekin ákvörðun um endursendingu og í máli eins umsækjenda var umsókn um hæli synjað. Tveimur hefur verið veitt hæli.

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er ákvörðun um endursendingu til samstarfsríki Dyflinnarsamkomulagsins tekin á grundvelli  Dyflinnarreglugerðarinnar.

Þá eru mál sjö umsækjenda sem komu á árinu enn til meðferðar, eða í vinnslu, stofnuninni.
 
Þar fyrir utan hafa alls verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum í tilvikum sjö umsækjenda um hæli á þessu ári (umsækjendur sem komu fyrir 1. janúar 2009). Þá fengu fjórir slíkt leyfi sem áður höfðu dregið umsóknir um hæli tilbaka.

650 hælisumsóknir frá 1996 til 2008

Fram kemur í skýrslu nefndar um meðferð hælisumsókna, sem kom út í ágúst sl., að á milli áranna 1996 til ársloka 2008 hafa 650 hælisumsóknir borist. Af þeim drógu 166 hælisumsækjendur umsóknir sínar til baka eða hurfu af landi brott. 235 voru endursendir og 252 mál voru tekin til efnismeðferðar.

Í skýrslunni er tekið fram að ef einstaklingur dregur umsókn sína til baka, eða hverfi hann sannanlega áður en meðferð á máli hans sé lokið, sé umsókn viðkomandi felld niður. Útlendingastofnun tekur þá ekki hefðbundna ákvörðun í máli viðkomandi.

Endursending á grundvelli svonefnds Færeyjasamnings eða Dyflinnarreglugerðarinnar og svo ákvörðun um hvort hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum skuli veitt, í kjölfar efnismeðferðar, telst hins vegar slík ákvörðun. 

Fjöldi hælisleitenda tuttugufaldast

Í skýrslunni kemur fram að þegar heildartölur frá árinu 1996 séu skoðaðar  sést að fjöldi hælisleitenda hafi næstum tuttugufaldast eða frá því að vera 4 umsóknir til þess að verða 73 árið 2008.

Tekið er fram á þessu séu ýmsar skýringar, auk þeirrar staðreyndar að hælisumsóknum hafi fjölgað talsvert í nær öllum Evrópuríkjum. Stærsti einstaki áhrifavaldurinn í þeim efnum hér á landi sé vafalaust aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Það tók gildi árið 2001 og opnaði fyrir frjálsa för einstaklinga um innri landamæri þátttökuríkjanna, með því að fella niður persónueftirlit með einstaklingum á ferð milli ríkjanna. Þess í stað voru samræmd eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert