Mótmæla brottvísun flóttamanna

Mótmælendur á Lækjartorgi
Mótmælendur á Lækjartorgi mbl.is/Ómar

Um sextíu manns taka þátt í mótmælafundi sem nú stendur yfir á Lækjartorgi. Er það hópur sem kallar sig Flóttamannahjálpin sem stendur fyrir fundinum undir yfirskriftinni: „Niður með rasisma, niður með Útlendingastofnun!“. Meðal ræðumanna er Birgitta Jónsdóttir þingmaður Hreyfingarinnar.

Fjórir hælisleitendur voru sendir af landi brott áleiðis til Grikklands í gærmorgun, en þeir eru allir frá Mið-Austurlöndum og hafa þrír þeirra dvalið á Íslandi í rúmt ár.

Mennirnir voru boðaðir til lögreglu vegna brottflutningsins síðdegis á fimmtudag og voru í umsjá lögreglu síðasta hálfa sólarhringinn áður en þeir voru fluttir brott.

Mál mannanna höfðu verið í biðstöðu um nokkurra mánaða skeið á meðan dómsmálaráðuneytið grennslaðist fyrir um hvort aðstæður hælisleitenda í Grikklandi væru ásættanlegar, en Flóttamannastofnun SÞ og Rauði krossinn hafa lagst gegn því að flóttamenn séu sendir þangað. Í september lauk svo kærumeðferð í málum þeirra og var þeim þá birtur úrskurðurinn.

Einn mannanna sem sendir voru til Grikklands í gær er Noordin Alazawi, 19 ára gamall Íraki sem hefur verið á flótta undan stríðinu í heimalandi sínu síðan hann var 15 ára. Faðir Noordins var myrtur í Írak og sundraðist fjölskylda hans í kjölfarið. Sjálfur ætlaði Noordin sér aldrei að koma til Ísland en hann hefur aðlagast vel að eigin sögn það rúma ár sem hann hefur dvalist hér, eignast íslenska kærustu, sótt íslenskunámskeið og fengið vinnu. Noordin sagðist í samtali við Morgunblaðið í apríl síðastliðnum óttast að yrði hann sendur aftur til Grikklands þýddi það í raun að hann endaði aftur í Írak, þar sem hann telur ekki öruggt að dveljast auk þess sem hann á þar ekki lengur fjölskyldu eða heimili.

Mótmælt á Lækjartorgi í dag
Mótmælt á Lækjartorgi í dag mbl.is/Ómar
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Hreyfingarinnar á mótmælafundinum
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Hreyfingarinnar á mótmælafundinum mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert