Fjárlagaagi verður Íslandi erfiður

Fjármálaráðherrar Íslands, Bretlands og Hollands viðurkenna meðal annars í sameiginlegri yfirlýsingu vegna Icesve-samninganna, að sá agi sem beita þurfi í fjárlögum Íslands vegna samninganna verði íslensku þjóðinni ekki auðveldur.

Lýsa þeir yfir stuðningi við árangursríka endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í samræmi við þær ákvarðanir sem voru teknar í nóvember á grundvelli viljayfirlýsingar Íslands. Þeir líta svo á að lausn Icesave-málsins, ásamt fjárhagslegum stuðningi frá öðrum löndum Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, séu mikilvægt skref í þá átt að bæta verulega stöðu Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og aðgengi að þeim.

Fjármálaráðherra lagði nú síðdegis fram frumvarp um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta. Þar áréttar Ísland bindandi ábyrgð sína gagnvart þeim skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda að greiða innstæðueigendum Icesave í Bretlandi og Hollandi tryggingu án þess að viðurkenna að fyrir hendi hafi verið lagaleg skuldbinding um að veita þann stuðning.

Í frumvarpinu er fjármálaráðherra einnig falið að fylgjast með efnahagsstöðu Íslands og tilhögun lánasamninganna vegna Icesave með það í huga að tryggja snurðulausa framkvæmd þeirra og gera ráðstafanir vegna frekari viðræðna eftir því sem nauðsyn krefur.

Aðilarnir eru einhuga um að vinna saman á næstu mánuðum og árum, en í því felst meðal annars að ræða að beiðni einhvers aðilanna um álitaefni sem upp kunna að koma og bregðast við þeim eftir atvikum. Aðilarnir munu starfa saman að því að veita aðstoð við endurheimt þeirra eigna Landsbankans sem um ræðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert