Lífaldur íslenskra karla mestur

Íslenskir karlar verða elstir norrænna karla og Íslendingar nota netið …
Íslenskir karlar verða elstir norrænna karla og Íslendingar nota netið mest norrænna ríkja. mbl.is/Heiddi

Áætlaður lífaldur Íslendinga er sá hæsti á Norðurlöndum - það á þó einungis við um karla en íslenskar konur verða næstum jafn gamlar og sænskar kynsystur þeirra.
Áætlaður meðallíftími nýfædds drengs á Íslandi er 79,6 ár og er það norrænt met. Þetta kemur fram í ritinu Norrænum hagtölum sem kemur út í dag.

Færeyskar konur vinna mest norrænna kvenna

Finnskir og danskir karlar verða að jafnaði 76,3 ára sem er stysti lífaldur á Norðurlöndum. Meðallíftími grænlenskra karla er þó enn skemmri, hann var á árinu 2007 aðeins 66,3 ár.

Íslenskar  konur voru afar virkar á vinnumarkaði árið 2008. Hlutfall þeirra á vinnumarkaði var 84% og starfshlutfall þeirra að jafnaði um 80 af hundraði. Færeyskar konur tóku íslenskum konum þó fram hvað varðar atvinnuþátttöku, en 90% þeirra eru á vinnumarkaði og er starfshlutfall þeirra að jafnaði 89 prósent.

Íslendingar nota netið mest en Finnar minnst

Íslendingar eru iðnastir allra Norðurlandabúa á Netinu, en 88 prósent þeirra eru á netinu  minnst einu sinni í viku.  Finnar nota Netið minnst, eða einungis 78 prósent þeirra.

Íslenskir karlar reykja lítið, áttatíu af hundraði þeirra reykja ekki. Sænskir karlar reykja þó enn minna, því hlutfall karla sem ekki reykja í Svíþjóð er 87%.

Jón er vinsælasta nafnið sem nýfæddum drengjum er gefið á Íslandi. Annars staðar á Norðurlöndum er Lucas vinsælast, eða í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert